spot_img
HomeFréttirFrancis Marion University sýnir Brynjari og Jóhanni áhuga

Francis Marion University sýnir Brynjari og Jóhanni áhuga

06:00
{mosimage}

 

(Jóhann Árni Ólafsson)

 

Þeir Brynjar Þór Björnsson leikmaður KR og Jóhann Árni Ólafsson leikmaður UMFN hafa báðir staðfest í samtali við Karfan.is að bandaríski háskólinn Francis Marion University hafi sýnt þeim áhuga. Gary Edwards er þjálfari körfuboltaliðsins í skólanum en Falur Harðarson lék undir stjórn Edwards í Charleston Southern University á árunum 1991-1994.

 

,,Edwards er númer eitt tvö og þrjú góður maður og góður þjálfari sem reyndist mér mjög vel. Ég sendi einnig Fannar Ólafsson til Edwards á sínum tíma og þá var Gary að þjálfa hjá IUP skólanum,” sagði Falur í samtali við Karfan.is en Edwards er nú á sínu þriðja ári hjá FMU.

 

,,Myndbrotum af bæði Jóhanni og Brynjari var komið í hendur Gary og hreifst hann svo af framgöngu þeirra að hann vildi þá báða til liðs við skólann á fullum skólastyrk. Ég veit upp á hár hvert þessir tveir ungu leikmenn gætu verið að fara. Maðurinn, Edwards, sem stjórnar þessu körfuboltaprógrammi í FMU er fær um að ná miklum framförum með Brynjar og Jóhann sem leikmenn og svo er þetta vitaskuld og umfram allt tækifæri til þess að mennta sig,” sagði Falur og bætti því við að hann sjálfur hefði komið mun sterkari leikmaður heim til Íslands eftir veru sína hjá Edwards.

 

Karfan.is setti sig einnig í samband við þá Brynjar og Jóhann sem báðir fara nú vandlega yfir sín mál. ,,Ég er að skoða þetta með opnum augum en bæði Falur og Fannar Ólafsson báru Gary Edwards góða söguna og ég á von á því að heyra í Edwards bráðlega,” sagði Brynjar sem nýverið varð fyrir miklum vonbrigðum þegar High Point skólinn hafnaði honum á þeim grundvelli að of seint væri að sækja um skólavist og að of margir erlendir stúdentar væru þegar skráðir til náms við skólann.

 

,,Þetta er opnara þarna í 2. deildinni,” sagði Brynjar en High Point leikur í 1. deild háskólakörfuboltans en FMU í 2. deild. ,,Umsóknarfresturinn í skóla í 2. deild rennur út 2. júlí en það er ekkert orðið fast í þessum efnum ennþá,” sagði Brynjar Þór en sagði að líklegt væri að Edwards myndi heimsækja Ísland í sumar til þess að koma og skoða hann og Jóhann við æfingar.

 

Jóhann Árni Ólafsson er nú staddur í útskriftaferðalagi í Tyrklandi en gaf sér engu að síður tíma til þess að ræða við Karfan.is. ,,Skólinn sýndi mér áhuga og ég er bara að meta stöðuna þessa dagana. Mér leist vel á tilboðið frá þeim og er núna að huga að minni framtíð. Ég lauk stúdentsprófi um jólin og er farinn að huga að háskólanámi,” sagði Jóhann Árni sem var einn af máttarstólpum Njarðvíkurliðsins í vetur.

 

Sigurður Ingimundarson landsliðsþjálfari valdi bæði Jóhann og Brynjar í 23 manna æfingahóp sinn og því verða þeir með landsliðinu í undirbúningi fyrir Evrópukeppni B-liða sem fer af stað í enda sumars.

 

[email protected]

 

{mosimage}

(Brynjar Þór Björnsson)

Fréttir
- Auglýsing -