Þá er það ljóst að Spánn og Frakkland munu leika til úrslita um Evrópumeistaratitilinn í körfuknattleik 2011. Frakkar voru rétt í þessu að leggja Rússa að velli 79-71 í seinni undanúrslitaviðureign dagsins.
Tony Parker var atkvæðamestur í liði Frakka með 22 stig, 3 fráköst og 3 stoðsendingar. Nicolas Batum leikmaður Portland Trail Blazers bætti svo við 19 stigum, 7 fráköstum og 4 stoðsendingum. Hjá Rússum var Andrei Kirilenko stigahæstur með 21 stig og 3 fráköst.
Á sunnudag er svo sjálfur úrslitadagurinn sem hefst á bronsviðureign Rússa og Makedóna kl. 14.30 og úrslitaleikurinn er kl. 18.00 þar sem eigast við eins og áður segir Spánverjar og Frakkar.
Tapið í dag var fyrsta tap Rússa á mótinu en þeirra fremsti maður hefur verið Andrei Kirilenko með alls 125 stig á mótinu eða 13,9 stig að meðaltali í leik og 6,3 fráköst.
Mynd/ FIBA EUROPE: Joakim Noah og félagar í franska liðinu mæta Spánverjum á sunnudag í úrslitum EM 2011.