spot_img
HomeFréttirFrákast körfuknattleiksdeildar Skallagríms er komið út

Frákast körfuknattleiksdeildar Skallagríms er komið út

Frákastið, kynningarblað körfuknattleiksdeildar Skallagríms í Borgarnesi, er nú komið út í 13 skipti. Í Frákastinu, sem komið hefur út með hléum frá 2009, er að finna fjölbreytt og skemmtilegt efni sem tengist körfuboltamenningunni í Borgarnesi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá KKD Skallagríms.
 
Meðal efnis að þessu sinni eru skemmtileg viðtöl við landsliðsmennina Pavel Ermolinski og Hlyn Bæringsson þar sem þeir rifja upp sín fyrstu skref í meistaraflokki sem einmitt var með Skallagrími, Borgnesinginn og landsliðskonuna Sigrúnu Sjöfn Ámundadóttur, leikmanns Norrköping Dolphins í Svíþjóð og körfuboltadómarann reynslumikla Einar Þór Skarphéðinsson, sem dæmt hefur fyrir Skallagrím í úrvalsdeildum karla og kvenna í aldarfjórðung. Einnig er að finna viðtal við Pétur Ingvarsson, þjálfara Skallagríms í Dominos deild karla í körfubolta, en hann tók við liðinu í sumar. Auk annarra viðtala er að finna kynningarefni í Frákastinu um öflugt starf körfuknattleiksdeildar Skallagríms, leikjaplan, kynningu á þjálfurum yngri flokka og sitt hvað fleira. Fjöldi ljósmynda glæðir loks blaðið skemmtilegu lífi líkt og í fyrri útgáfum.

  
Fréttir
- Auglýsing -