spot_img
HomeFréttirFrábær vika í Sixers-búðunum

Frábær vika í Sixers-búðunum

Fyrr í sumar héldu um 40 ungmenni frá Íslandi á vit ævintýranna í USA, áfangastaðurinn Philadelphia 76ers körfuboltabúðirnar. Undirritaður fylgdi 13 stúlkum á aldrinum 14-16 ára frá Grindavík en auk þeirra voru 2 stúlkur úr Keflavík, 1 úr Fjölni og 1 úr Hveragerði í búðunum. Þá fóru yfir 20 drengir frá Stjörnunni í búðirnar þessa sömu viku, undirritaður gat lítið fylgst með strákunum og því ekkert fjallað sérstaklega um þá hér.
 
 
Strax fyrsta daginn var skipt í lið og spilað, aldurskipt. Þar var fylgst með hverjum og einum og reynt að skipta í lið þannig að liðin innan hverrar deildar (aldurflokks) yrði sem jöfnust að styrkleika. Stúlknamegin voru settar upp 2 deildir. Það var ljóst frá fyrsta degi að við værum að fara að spila körfubolta í miklum hita og raka hvort sem spilað var inni eða úti undir bláum himni 8-10 tíma á dag. Hitinn í kringum 33 gráðurnar og rakinn mjög mikill. Við hugsuðum hlýlega heim til Íslands þar sem við fengum stanslaust skilaboð um haustveður heima.
 
Á hverjum degi var farið í gegnum stöðvaþjálfun, æfingar með sínum liðum, ýmsar þrautir voru leystar innan deilda ásamt mörgu öðru sem tengdist körfubolta. Þá voru morgunæfingar á hverjum morgni sem íslensku stelpurnar voru duglegar að taka þátt í. Jafnt og þétt var tekin tölfræði af leikmönnum og haldið utan um það í bók sem leikamenn fengu að taka með sér heim. Spilaðir voru 2-3 hörkuleikir á hverjum degi innan deildanna. Vel var hugsað um leikmennina á búðunum en sjúkraþjálfarar voru við hvern völl sama hvort það vær æfing, leikur eða einhverjar þrautir á vellinum.
 
Það var ljóst í upphafi búðanna að íslensku stelpurnar sem voru mættar í búðirnar stóðu vel að vígi gagnvart jafnöldrum sínum í búðunum. Má segja að við höfum slegið í gegn og margir þjálfarar í búðunum höfðu orð á því hversu vel íslensku krakkarnir stóðu sig.
 
Á lokadeginum voru síðan spilaðir úrslitaleikir í hverri deild og þar voru 8 íslenskar stúlkur í tveimur úrslitaleikjum hjá stúlkunum.
Stelpurnar frá Íslandi voru síðan leystar út með fjölmörgum einstaklingsverðlaunum á lokahófi áður en haldið var heim. Þar fengum við m.a. MVP í báðum deildum, besta varnarmann í eldri hópnum, dugnaðarforkinn í yngri hópnum, besta liðsfélagann í yngri hópnum, stigahæstu leikmennina í þeirri tölfræði sem haldið var úti í hvorri deild og svo mætti lengi telja.
 
Frábærri helgi lauk svo með dramatískri bið eftir transporti í limmósíu sem ekki verður lýst hér.
 
Undirritaður vill hvetja alla þá sem hafa tök og áhuga á að komast í körfuboltabúðir að elta búðir sem þessar uppi og taka þátt. Það er ljóst að þjálfarar í mörgum skólum í USA sýna körfuboltabúðum t.d. hjá Sixers mikinn áhuga og því kjörið tækifæri til að sýna sig og sanna. Þess ber að geta að fulltrúi frá einum skóla í nágrenni Philadelphia sýndi a.m.k. tveimur íslenskum leikmönnum áhuga í Sixersbúðunum.
 
Körfuboltakveðja, Atli Geir Júlíusson
 
 
 
  
Fréttir
- Auglýsing -