spot_img
HomeFréttirFrábær fyrri hálfleikur dugði ekki gegn ógnarsterkum Frökkum

Frábær fyrri hálfleikur dugði ekki gegn ógnarsterkum Frökkum

Ísland tapaði stórt fyrir Frakklandi á Eurobasket í dag 115-79. Tölurnar hins vegar segja ekki alla söguna því allt annað var að sjá liðið í dag en í síðsta leik gegn Póllandi. Frakkar voru einfaldlega nokkrum númerum of stórir.

 

Umfjöllun um helstu þætti leiksins má finna hér að neðan:

 

Gangur leiksins:

 

Franska liðið setti fyrstu tvær körfur leiksins og stemmningin þeirra megin strax. Þjálfarar Íslands skiptu mikið og hratt inná í byrjun og frábær byrjun Jóns Arnórs kom Íslandi á lagið. Fyrsti leikhluti Íslands var hreint út sagt frábær, sérstaklega sóknarlega. Kristófer Acox átti stórkostlega innkomu í Íslenska liðið í dag. Hann var með átta stig, fjögur fráköst og einn stolinn bolta á sex mínútum í fyrsta leikhluta. Boltahindranir hans voru framúrskarandi og bjó hann þannig til mikið af færum. Ísland leiddi á tímabili en skotnýting Frakklands var algjörlega ævintýralega, þeir hittu 80% skota sinna og mörg þeirra virkilega erfið. Staðan eftir fyrsta leikhlutann var 29-25 fyrir Frakklandi. 

 

Ísland hafði betur í frákastabaráttunni í fyrri hálfleik öfugt við síðustu leiki. Liðið tók heil 12 sóknarfráköst en það franska einungis eitt. Frakkland hitti alveg frábærlega í fyrri hálfleik en Ísland hleypti liðinu ekki í mörg hraðaupphlaup eða auðveldar körfur í mistökum. Staðan var 49-42 eftir fyrri hálfleik. Geðveikin og íslenska hjartað virtist loksins vera mætt á Eurobasket 2017. 

 

Franska liðið sýndi gæði sín í þriðja leikhluta. Liðið gekk á lagið sóknarlega setti 37 stig í þriðja leikhluta og þar af tólf stig úr töpuðum boltum Íslands. Munurinn var skyndilega orðin þrjátíu stig og trú Íslands á verkefninu fjaraði út hægt og rólega. 

 

Frakkland var komið í sjálfstýringu í fjórða leikhluta en Ísland hætti aldrei og sallaði inn stigum. Jón Arnór fór þar fremstur meðal jafningja. Allir leikmenn spiluðu eitthvað og fengu dýrmæta reynslu gegn ógnarsterku liði Frakklands. Lokastaðan 115-79 fyrir Frakklandi. 

 

 

Tölfræðin lýgur ekki:

 

Franska liðið hitti 68% úr 66 skotum sínum í dag og þar af 10 af 18 þriggja stiga skotum sínum. Ísland hitti 36% í öllum leiknum en þar liggur stórhluti af muninum í dag. Ísland var með jafnmörg fráköst í leiknum en þó mun fleiri sóknarfráköst en frakkarnir eða 19 á móti 5. 

 

Hetjan:

 

Kristófer Acox kynnti sig fyrir evrópskum körfubolta í dag. Þvílík innkoma hjá drengnum sem lék sinn besta leik á þessu móti. Hann endaði með 10 stig og 7 fráköst, þar af sex sóknarfráköst. Hann hitti ágætlega en boltahindranir hans voru algjör X-factor í frábærum fyrri hálfleik Íslands. Eftir slakan leik í gær ákvað Jón Arnór Stefánsson hinsvegar að axla ábyrgð og setti upp í frábæra frammistöðu í dag. Hann endaði með 23 stig og 7 fráköst auk þess sem hann sýndi styrk varnarlega og leiddi liðið algjörlega. 

 

Kjarninn: 

 

Ísland lék algjörlega frábærlega í fyrri hálfleik í dag. Barátta liðsins og gleði var aftur til staðar en liðið var gagnrýnt harðlega fyrir frammistöðu sína gegn Póllandi. Staðreyndin er einfaldlega sú að Franska liðið virðist vera alveg með 30 stigum meiri gæði en það Íslenska. Það má ekki taka af Frakklandi að þeir léku frábærlega í dag. Boltaflæði liðsins var framúrskarandi og tókst þeim undantekningalaust að finna opin mann er Ísland tvöfaldaði undir körfunni á stóru menn liðsins. Franska liðið er einfaldlega það gott að ef það fær opin skot þá fer 60-70% skotanna ofaní líkt og gerðist í dag. 

 

Þrátt fyrir tapið gegn Finnlandi í fyrsta leik þá er Franska liðið enn mjög líklegt til árangurs á þessu móti. Liðið hefur misst marga leikmenn í meiðsli í undirbúningnum og því liðið enn að spila sig saman. 

 

Þetta er í áttina hjá Íslandi. Liðið á enn helling inni og þarf það að finna einhvern stöðugleika á sínum leik. Það brotnar full auðveldlega við minnsta mótlæti en gæðin á mótherjum Íslands á þessu móti eru það mikil að það er erfitt að byrja að elta snemma leiks. Hlyn Bæringsson átti slakan leik fyrir Ísland í dag og á liðið hann alveg inni. Þjálfarar liðsins brugðust vel við leik gærdagsins, létu yngri menn koma inná fyrr og breyttu skiptingum sínum nokkuð. 

 

Stuðningsmenn Íslands í dag hafa hlotið mikla athygli eftir leik. Allir leikmenn Frakklands hrósuðu stuðningsmönnunum mikið eftir leik og sögðu þetta einstakt. Þá má taka fram að klappstýrur, vallarþulir og allir blaðamenn í húsinu voru farnir að styðja Ísland með stuðningsmönnum Íslands. 

 

 

Myndasafn leiksins

 

Tölfræði leiksins

 

Einkunnir leikmanna 

 

Blaðamannafundur Íslands og Frakklands:

 

 

 

Umfjöllun / Ólafur Þór Jónsson

 

Myndir / Skúli B. Sigurðsson

Fréttir
- Auglýsing -