Það var byrjendabragur á leik Hauka og Skallagríms í kvöld þegar Borgnesingar mættu til leiks á Ásvelli í 1. deild karla. Bæði lið gerðu sig sek um mistök í upphafi og einkenndust fyrstu tvær mínúturnar af töpuðum boltum.
Borgnesingar kynntu til leiks annan erlendan leikmann, Silver Laku, en fyrir er þjálfari þeirra Konrad Tota. Haukar kynntu til leiks nýjustu viðbót sína, Sævar Inga Haraldsson, sem kom inn í liðið í gær.
Eftir tæpar tvær mínútur var fyrsta karfa leiksins skoruð og var það Konrad Tota sem gerði hana fyrir Skallagrím. Óskar Ingi Magnússon jafnaði leikinn og skiptust svo liðin á að skora. Haukar náðu yfirhöndinni og leiddu með þremur til fimm stigum þangað til á síðustu mínútu fyrsta leikhluta er þeir náðu að auka muninn í níu stig og leiddu 24-15 eftir leikhlutann.
Áfram héldu Haukar að auka muninn og um miðbik annars leikhluta voru þeir komnir 11 stigum yfir. Borgnesingar sölluðu nokkrum körfum og minnkuðu muninn aftur niður í fimm stig. Haukar höfðu algjörlega yfirhöndina en leikmenn Skallagríms pössuðu upp á það að missa Haukaliðið ekki of langt frá sér. Haukar leiddu í hálfleik með sama mun og í fyrsta leikhluta, níu stigum, 41-32.
Haukar komu vel stemmdir til leiks í seinni hálfleik og tóku öll völd á vellinum. Áður en áhorfendur vissu af var munurinn orðinn 15 stig og á meðan ekkert gekk hjá Skallagrími var stemningin öll Hauka meginn. Haukar leiddu með 16 stigum eftir þriðja leikhluta 62-46 og það var ekkert sem að benti til þess að Borgnesingar væru að fara að gera sig líklega til að gera stóra hluti.
Konrad Tota hefur heldur betur lesið yfir hausamótunum á sínum mönnum því þeir gjörbreyttu leik sínum sem skilaði þeim 2-18 spretti á fimm mínútna kafla í upphafi fjórða leikhluta. Staðan var orðin 64-63 og leikurinn var gjörsamlega opinn. Haukar bitu aðeins frá sér og juku muninn aftur í sex stig.
Það má segja að Helgi Björn Einarsson leikmaður Hauka hafi klárað dæmið fyrir þá rauðklæddu. Helgi setti niður tveggja stiga körfu í stöðunni 69-66. Skallagrímur hélt til sóknar og aftur var Helgi mættur og stal boltanum. Haukar fengu ekkert úr þeirri sókn annað en tæknivillu sem dæmd var á Sævar Haraldsson. Konrad Tota minnkaði muninn á línunni með einu víti og Haukar stálu svo knettinum þegar þeir fóru í sókn. Helgi fékk aftur boltan, nú fyrir utan þriggjastigalínuna og brotið var á honum. Helgi setti niður skotið en klikkaði úr vítinu. Skallagrímsmenn héldu til sóknar en uppskáru lítið. Helgi Einarsson kláraði svo dæmið á vítalínunni þegar hann setti niður tvö skot og Haukar unnu góðan sigur 76-71.
Títtnefndur Helgi var stigahæstur Haukamanna með 15 stig og 7 fráköst. Næstir honum voru Davíð Hermannsson og Óskar Ingi Magnússon með 11 stig.
Hjá Skallagrími var Konrad Tota með 26 stig og 6 fráköst og Hafþór Gunnarsson gerði 18 stig, var með 13 fráköst og 5 stoðsendingar.
Mynd: [email protected]