Páll Fannar Helgason leikur að öllum líkindum með Valsmönnum að Hlíðarenda í 1. deild karla á næsta tímabili að eigin sögn. Karfan.is náði í skottið á Páli sem er Íslands- og bikarmeistari með Snæfell en þangað fór hann frá KR fyrir síðasta tímabil og var þar áður hjá Valsmönnum, sínu uppeldisfélagi.
Páll Fannar fékk góða sénsa í úrvalsdeildinni undir stjórn Inga Þórs Steinþórssonar í Snæfellsliðinu og gerði 2,6 stig að meðaltali í leik en Páll Fannar er mikil skytta og mun vafalítið nýtast Valsmönnum vel í baráttunni í 1. deild en þar á bæ hafa menn reynt að berja sig upp í úrvalsdeild hin síðustu ár.
Fleiri lið voru inni í myndinni hjá Páli sem sagði þó yfirgnæfandi líkur á því að Valur yrði fyrir valinu.
Ljósmynd/ Jón Björn Ólafsson – [email protected] – Páll Fannar í leik gegn KR í undanúrslitum IEX deildarinnar á síðasta tímabili.