spot_img
HomeFréttirFlott frammistaða Íslands ekki nóg í Bologna

Flott frammistaða Íslands ekki nóg í Bologna

Ítalía lagði Ísland í Bologna í kvöld í undankeppni HM 2023, 95-87. Eftir leikinn eru liðin jöfn í 2.-3. sæti í riðlinum, hvort um sig með tvo sigra og tvö töp, en Ítalía sæti ofar vegna innbyrðisstöðu. Í efsta sæti riðilsins er Rússland með þrjá sigra og ekkert tap og því fjórða og neðsta Holland án sigur með þrjú töp.

Fyrir leik

Fyrri leik liðanna vann Ísland eftir tvíframlengdan leik síðasta fimmtudag í Ólafssal í Hafnarfirði, 107-102.

Margir ráku upp stór augu þegar að Martin Hermannsson var ekki í byrjunarliði Íslands og lék ekki fyrir liðið í kvöld, en ekkert hafði verið gefið út um að hann yrði ekki með Íslandi fyrir leik. Munaði um minna fyrir íslenska liðið, en ásamt Tryggva Snæ er Martin óumdeilanlega einn tveggja bestu leikmanna Íslands um þessar mundir.

Gangur leiks

Íslenska liðið hóf leikinn af miklum krafti og var yfir lungann úr fyrsta leikhlutanum. Þegar fyrsti fjórðungurinn er á enda er þó allt í járnum, 27-28 fyrir Ísland þar sem að Elvar Már Friðriksson var kominn með 9 stig. Heimamenn ná svo yfirhöndinni í öðrum leikhlutanum og fara með 8 stiga forystu til búningsherbergja í hálfleik, 53-45.

Elvar Már Friðriksson stigahæstur í íslenska liðinu í fyrri hálfleiknum með 17 stig á meðan að Amedeo Della Valle dró vagninn fyrir Ítalíu með 15 stigum.

Ítalir mæta mun sterkari til leiks í seinni hálfleiknum. Hóta því í nokkur skipti að gera útum leikinn í þriðja leikhlutanum, en íslenska liðið gerir vel að halda í við þá og er munurinn aðeins 12 stig fyrir þann fjórða, 74-62. Í lokaleikhlutanum missir Ísland þá aðeins frá sér, en ná á lokamínútunum að koma mun heimamanna rétt inn fyrir 10 stigin. Lengra komast þeir þó ekki, niðurstaðan nokkuð öruggur 8 stiga sigur heimamanna 95-87.

Tölfræðin lýgur ekki

Ísland passaði boltann ekki nógu vel í leik kvöldsins. Töpuðu 19 boltum á móti aðeins 5 töpuðum boltum heimamanna.

Atkvæðamestir

Elvar Már Friðriksson var frábær fyrir Ísland í dag þrátt fyrir tapið, með 30 stig og 6 fráköst á rúmum 35 mínútum spiluðum. Honum næstir voru Tryggvi Snær Hlinason með 14 stig, 8 fráköst og Jón Axel Guðmundsson með 16 stig og 4 fráköst. Þá var Pavel Ermolinski einnig góður, nálægt þrennunni með 6 stig, 9 fráköst og 10 stoðsendingar.

Hvað svo?

Leikurinn var sá seinni hjá báðum liðum í þessum landsliðsglugga. Ísland á tvo leiki eftir, báðir heima, gegn Rússlandi þann 1. júlí og Hollandi 4. júlí.

Tölfræði leiks

Myndasafn

Fréttir
- Auglýsing -