22:39
{mosimage}
(KR-ingar fögnuðu innilega í leikslok enda magnaður ,,thriller" að baki)
Óhætt er að fullyrða að einhver svakalegasti körfuboltaleikur Íslandssögunnar hafi farið fram í DHL-Höllinni í kvöld! Fjórframlengja þurfti viðureign KR og Keflavíkur í þriðja undanúrslitaleik Iceland Exrpess deildar karla þar sem KR hafði betur 129-124. Spennan í DHL-Höllinni var óbærileg þar sem liðin skiptust á því að hafa forystu og hver leikmaðurinn á fætur öðrum týndist af velli með fimm villur en það skipti engum sköpum hverjir komu inn af tréverkinu, allir lögðu sitt af mörkum.
Keflvíkingar eiga mikið hrós skilið fyrir sína frammistöðu í kvöld en KR sópaði þeim út í sumarið og leika til úrslita gegn Snæfell eða Grindavík. Keflvíkingar gáfust aldrei upp og það gerðu KR-ingar ekki heldur og áhorfendur fengu svo sannarlega þyngd aðgöngumiðans endurgreidda í körfuboltaveislu.
Liðsmenn Stöðvar 2 Sport naga sig eflaust í handarbökin að hafa ekki verið með þennan leik í beinni enda um stórmerkilegan viðburð að ræða. Eins og þeir segja í Ameríkunni: ,,You can´t win them all“ en þess ber þó að geta að Stöð 2 Sport hefur síðustu ár sýnt fjölda stórleikja og eru vel að sínu komnir en grátlegt að missa af jafn rosalegum leik og fór fram í DHL-Höllinni í kvöld.
Baldur Ólafsson var í byrjunarliði KR í kvöld og var landsliðsmiðherjinn Fannar Ólafsson á bekknum. Heimamenn mættu nokkuð værukærir til leiks og það nýttu Keflvíkingar sér strax frá fyrstu mínútu. Sverrir Þór Sverrisson var þó helst til of ákafður og fékk snemma tvær villur í liði Keflavíkur.
Þegar fimm mínútur voru liðnar af fyrsta leikhluta var staðan 4-12 fyrir Keflavík og heimamenn í KR engum takt við leikinn. Jesse Rosa hafði góðar gætur á Jóni Arnóri Stefánssyni í upphafsleikhlutanum og komst Jón ekki á blað fyrr en undir lok leikhlutans þegar hann setti niður tvö vítaskot.
KR-ingar áttu þó fína rispu og minnkuðu muninn í 9-14 en Keflvíkingar létu það ekki á sig fá og leiddu 15-24 að loknum fyrsta leikhluta þar sem Sigurður Gunnar Þorsteinsson var að reynast miðherjum KR, þeim Baldri og Fannari, ansi þungur ljár í þúfu.
Félagarnir Helgi Már Magnússon og Jón Arnór Stefánsson voru heitir í upphafi annars leikhluta. Helgi minnkaði muninn í 21-26 með þrist og skömmu síðar var Jón Arnór á ferðinni með annan þrist og staðan orðin 24-28 og mikil stemmning komin í lið KR. Fannar Ólafsson var líka líflegur í liði KR en Keflvíkingar ætluðu sér ekki að láta heimamenn ná sér og snöggtum breyttu þeir stöðunni í 31-40. Á sama tíma afrekaði Skarphéðinn Ingason það í liði KR að koma af bekknum og fá þrjár villur dæmdar á sig og þar af eina tæknivillu og Keflvíkingar nýttu sér meðbyrinn.
{mosimage}
(Jón Arnór sækir að körfu Keflavíkur)
Þegar rétt rúmar tvær mínútur voru til hálfleiks leiddu Keflvíkingar 35-49 þar sem Jesse Rosa, Hörður Axel og Jón N. Hafsteinsson voru líflegir á meðan KR-ingar létu dómgæsluna fara í taugarnar á sér. Staðreyndin var einfaldlega sú að vörn KR var gersamlega í molum og að því sögðu leiddu gestirnir 46-58 í leikhléi og aðrar eins tölur vart sést í DHL-Höllinni í vetur enda heimamenn annálaðir varnarhundar.
Jón Arnór Stefánsson var stigahæstur KR-inga í hálfleik með 12 stig og vaknaði aðeins í öðrum leikhulta eftir rislítinn upphafsleikhluta. Næstur honum kom Jakob Örn Sigurðarson með 10 stig en í liði Keflavíkur var Jessi Rosa með 18 stig í hálfleik, Jón N. Hafsteinsson var með 12 og Hörður Axel Vihjálmsson með 11.
Jakob Örn Sigurðarson opnaði síðari hálfleik fyrir KR með þriggja stiga körfu og heimamenn gerðu 8 stig í röð án þess að Keflvíkingar næðu að svara og minnkuðu muninn í 54-58. Brotið var á Jesse Rosa í þriggja stiga skoti sem gerði fyrstu stig Keflavíkur í síðari hálfleik af vítalínunni. KR-ingar nálguðust óðfluga og léku mun betri vörn en þeir gerðu í fyrri hálfleik. Fannar Ólafsson fann sig vel í teignum og skoraði mikilvægar körfur en Keflvíkingar héldu forystunni uns Jón Arnór kom KR yfir 66-65 en gestirnir voru ekki lengi að svara 66-67 og var mikil harka farin að færast í leikinn.
Þegar tvær mínútur voru til loka þriðja leikhluta fékk Gunnar Einarsson sína fimmtu villu í liði Keflavíkur og var hann ekki par sáttur við ákvörðun dómarans en hélt á tréverkið með 5 stig og 5 villur. Jakob Örn Sigurðarson átti síðan lokaorðið og var það viðeigandi þar sem hann opnaði síðari hálfleikinn en Jakob setti þrist fyrir KR þegar 4 sekúndur voru eftir af þriðja leikhluta en Keflvíkingar leiddu engu að síður 72-74 fyrir fjórða og síðasta leikhlutann.
Jason Dourisseau kveikti í kofanum með skrímslatroðslu og minnkaði muninn í 78-80 en Jón N. Hafsteinsson var í miklum ham í Keflavíkurliðinu og kom sínum mönnum í 78-82 með sínum eldskörpu hlaupum í gegnum teiginn. Um miðjan fjórða leikhluta skiptu KR-ingar í svæðisvörn og lagðist það fremur illa í Keflvíkinga sem fundu fá göt á vörn KR. Jón Arnór stal boltanum fyrir KR, brunaði upp og jafnaði metin í 86-86 þegar rétt tæpar tvær mínútur voru til leiksloka. KR gerðu svo næstu körfu og komust í 88-86 þegar 40 sekúndur voru til leiksloka.
Keflvíkingar héldu í sókn, tóku skot þegar skammt var til leiksloka þar sem Jesse Rosa náði sóknarfrákastinu, vippaði sér aftur upp og jafnaði metin 88-88 með skot í teignum við endalínuna og 1.14 sek. eftir af leiknum. KR tók leikhlé en þriggja stiga skot Helga Magnússonar rétt geigaði og því var framlengt í stöðunni 88-88.
Fannar Ólafsson gerði fyrstu stig framlengingarinnar og kom KR í 90-88 en Ísafjarðartröllið Sigurður Þorsteinsson svaraði að bragði fyrir Keflavík og jafnaði 90-90. Athygli vakti að KR var aftur komið í maður á mann vörn en svæðisvörn þeirra í fjórða leikhluta hafði svínvirkað gegn Keflavík. Snemma í fyrstu framlengingunni fékk Jón N. Hafsteinsson sína fimmtu villu í liði Keflavíkur og varð frá að víkja eftir magnaðan leik. Jón Arnór Stefánsson jafnaði metin fyrir KR í 95-95 eftir hraðaupphlaup og Fannar Ólafsson kom KR í 97-95 þegar 11 sekúndur voru eftir af framlengingunni. Keflvíkingar héldu í sókn og Jesse Rosa fékk boltann, KR lagði ofuráherslu á Rosa og fyrir vikið losnaði um Sigurð Þorsteinsson sem jafnaði metin í 97-97 og því varð að blása í aðra framlengingu!
KR-ingar voru líflegir í upphafi annarar framlengingar og komust í 105-99 en Keflvíkingar voru ekki af baki dottnir og með fjórum stigum í röð frá Jesse Rosa og tveimur vítum frá Herði Axeli tókst Keflavík að jafna í 105-105 þegar 51 sekúnda var eftir af annarri framlengingu. Þegar 30 sekúndur voru til leiksloka áttu Keflvíkingar sókn þar sem þeir fóru sér að engu óðslega. Tíminn leið og brátt var skotklukkan að renna út en þá mundaði Gunnar Stefánsson fallbyssuna og kom Keflavík í 108-105 með mögnuðum þrist þegar 6.29 sekúndur voru til leiksloka. KR maskínan neitaði að játa sig sigraða og heimamenn tóku leikhlé og fengu því boltann aftur á miðju. Tuðran var send á Jón Arnór Stefánsson sem brunaði upp í hægra horn, fann ekki liðsfélaga heldur vippaði sér upp í erfiðan þrist og viti menn, boltinn söng í netinu og staðan 108-108 og því þurfti þriðju framlenginguna til.
Jason Dourisseau fór mikinn í þriðju framlengingu og skoraði nánast að vild. Í stöðunni 110-110 fékk Jón Arnór Stefánsson dæmda á sig sína fimmtu villu og varð frá að víkja. Jesse Rosa sem átti magnaðan leik í kvöld jafnaði svo fyrir Keflavík 114-114 með troðslu. Þegar 23 sekúndur voru til leiksloka fékk Jason Dourisseau vítaskot og hitti hann aðeins úr öðru skotinu og jafnaði metin í 116-116. Keflvíkingar áttu síðustu sóknina þar sem þristur frá Jesse Rosa, manni leiksins, fór forgörðum og því þurfti að blása til fjórðu framlengingarinnar!
Jason Dourisseau gerði sex fyrstu stig KR í fjórðu framlengingunni og KR komst í 122-118 en Keflvíkingar með Gunnar Einarsson, Sverrir Þór Sverrisson, Jón N. Hafsteinsson og Sigurð Þorsteinsson utan vallar með 5 villur létu ekki deigan síga og komust yfir 122-123 þegar Jesse Rosa skoraði og fékk víti að auki sem hann setti niður. Jakob Örn Sigurðarson steig upp fyrir KR og gerði fjögur stig í röð og kom sínum mönnum í 126-123. Staðan var svo 127-124 fyrir KR þegar 18 sekúndur voru til leiksloka og Keflvíkingar héldu í sókn. Þegar 5 sekúndur voru til leiksloka reyndu Keflvíkingar að jafna með þriggja stiga skoti en skotið geigaði og brotið var á Brynjari Björnssyni í KR sem náði frákastinu. Brynjar setti bæði vítin ofan í og gulltryggði sigur KR 129-124 í einhverjum eftirminnilegasta körfuboltaleik íslenskrar körfuboltasögu!
Jakob Örn Sigurðarson fór hamförum í liði KR í kvöld með 31 stig, 10 fráköst og 12 stoðsendingar en næstur honum var Jason Dourisseau með 30 stig, 13 fráköst og 5 stoðsendingar og Jón Arnór Stefánsson gerði 27 stig og var með 7 stoðsendingar. Vart er annað hægt en að taka ofan fyrir Keflvíkingum sem börðust eins og hetjur þrátt fyrir að hver lykilleikmaðurinn færi af öðrum af velli með 5 villur. Í liði Keflavíkur var Jesse Rosa að fífla KR-inga með 51 stig, 14 fráköst og 8 stoðsendingar. Jón N. Hafsteinsson átti líka glimrandi dag með 22 stig og 11 fráköst og Sigurður Þorsteinsson var iðinn við að gera Fannari Ólafssyni og Baldri Ólafssyni lífið leitt með 19 stig og 17 fráköst.
Hér með látum við staðar numið enda verður maður lengi að jafna sig á annarri eins körfuboltaveislu sem verður skrifuð hátt í sögubókum körfuboltans á Íslandi.
{mosimage}