Í kvöld hefst fjórða umferðin í Iceland Express deild karla með þremur leikjum sem allir hefjast kl. 19:15. Stjarnan og Njarðvík geta styrkt stöðu sína á toppi deildarinnar með sigrum í kvöld en þessi tvö lið ásamt KR eru einu ósigruðu lið deildarinnar. KR mætir síðan Grindavík á morgun í stórleik umferðarinnar í DHL-Höllinni.
Stjörnumenn taka á móti FSu í Ásgarði í kvöld en Stjarnan hefur unnið þrjá fyrstu leiki sína og er að eiga sína bestu byrjun í úrvalsdeild. FSu hefur að sama skapi tapað þremur fyrstu leikjum sínum í deildinni og fyrir tímabilið var þeim spáð falli í 1. deild.
Nýliðar Fjölnis fá topplið Njarðvíkur í heimsókn í Grafarvoginn í kvöld en Fjölnismenn hafa rétt eins og FSu tapað fyrstu þremur leikjum sínum í deildinni.
Breiðablik og ÍR mætast svo í Smáranum í Kópavogi en bæði lið hafa unnið einn leik og tapað tveimur og því von á miklum slag. Eins og kunnugt er orðið verður Sveinbjörn Claessen líkast til ekki meira með ÍR á þessu tímabili og er það veruleg blóðtaka fyrir Breiðhyltinga.