Það var enginn venjulegur leikur sem fram fór í Ásgarði í Garðabæ í gærkvöld. Mættust margfaldir Íslandsmeistarar Stjörnunnar B og úrvalsdeildarlið Stjörnunnar í 32 liða úrslitum Poweradebikarsins. Mikið var í húfi fyrir bæði lið en titillinn “konungar Garðabæjar” var á lausu fyrir kvöldið. Einnig má segja að fjölskyldutaugin hafi verið óvenju sterk í kvöld því í liði Stjörnunnar A voru ekki aðeins tvíburarnir Guðjón og Sigurjón Lárussynir, heldur einnig feðgarnir Jón Kr. Gíslason og Dagur Kár Jónsson. Þá var Atli Lárusson eldri bróðir þeirra Guðjóns og Sigurjóns í liði Stjörnunnar B.
Ljóst var frá byrjun að heimamenn í Stjörnunni B ætluðu að selja sig dýrt gegn úrvalsdeildarkempunum. B-menn stóðu enda ansi lengi í gestunum, og var það ekki fyrr en um miðjan þriðja leikhluta sem Stjarnan A skaust fram úr. Vakti það líka mikla hrifningu í lok fyrsta fjórðungs þegar Jón Kr. Gíslason kom inn á í liði gestanna, og spilaði þar með syni sínum, Degi.
Til að gera langa sögu stutta þá vann gestalið Stjörnunnar öruggan 31 stigs sigur, 91-60. Dagur Kár Jónsson var stigahæstur allra með 24 stig, og var haft á orði að þeir feðgar hefðu haft hæst framlag allra feðga á vellinum. Stjörnumenn eru því komnir í 16-liða úrslit Poweradebikarsins, en heimamenn í Stjörnunni B verða því miður að láta sér lynda að detta úr keppni þetta árið.
Mynd/ Úr safni – Reykjanesmeistarar Stjörnunnar lögðu b-liðið í gær.
Elías Karl Guðmundsson