spot_img
HomeFréttirFjölnir skellti val og spila í Iceland Express deildinni að ári (umfj.)

Fjölnir skellti val og spila í Iceland Express deildinni að ári (umfj.)

22:21
{mosimage}
(Haukur Pálsson sýndi það og sannaði í kvöld að hann er einn efnilegasti leikmaður landsins um þessar mundir)

Fjölnir tryggði sér sæti í Iceland Express deildinni á næsta tímabili með glæsibrag í kvöld þegar þeir lögðu Valsmenn örugglega 96-77.  Fjölnir var eina liðið sem mætti til leiks í fyrsta leikhluta og endaði hann 38-11 fyrri heimamönnum sem gerðu gjörsamlega út um leikinn strax í upphafi.  Valsmenn virtust aldrei hafa trú á því sem þeir voru að gera eftir það og leikurinn kláraðist hægt og rólega. Valsmenn sitja þar með eftir í 1.deild þriðja árið í röð sem þeir spila til úrslita. Ungstyrni Fjölnis fóru fyrir liðinu en Haukur Pálsson var stigahæstur heimamanna með 18 stig og 5 fráköst.  Næstir voru Roy Smallwood með 16 stig , 11 fráköst og 7 stoðsendingar og Arnþór Freyr Guðmundsson bætti við 15 stigum.  Hjá Val var Rob Hodgson stigahæstur með 23 stig en næstir voru Ragnar Gylfason með 15 stig og Hilmir Hjálmarsson með 10 stig.  

Fjölnismenn mættu með drápseðlið til leiks í kvöld eins og í fyrri leik liðana.  Þeir náðu strax forustunni og voru ekki lengi að taka leikinn í sínar hendur.  Þegar fyrsti leikhluti var hálfnaður var munurinn orðinn 10 stig, 17-7 og Fjölnismenn hreinlega hlupu í gegnum varnarleik Valsmanna.  Valsmenn tóku leikhlé þegar um það bil fjórar mínútur voru eftir af leikhlutanum en allt kom fyrir ekki.  Eftir leikhléið skoruðu heimamenn 16 stig gegn engu og þegar flautað var til loka leikhlutans var munurinn orðinn 27 stig, 38-11.  Fjölnismenn klikkuðu vart úr skoti í leikhlutanum og það var hverjum manni í húsinu ljóst hvort liðið vildi sigurinn meira. 

Ekki batnaði það fyrir gestina í öðrum leikhluta því forskot heimamann var fljótlega komið upp í 30 stig, 45-15 og varnarleikur valsmanna vægast sagt slakur.  Hilmir Hjálmarsson var eini maðurinn í liði gestana sem barðist fyrir boltanum og skilaði sínum mínútum vel.  Fjölnisliðið var hins vegar að spila fanta góðan körfubolta og virtist ekki skipta miklu hver væri inná því allir mættu tilbúnir til leiks.  Eins og gefur að skilja þá róaðist leikurinn þó nokkuð þegar leið á leikhlutan og lengra dró ekki á milli liðana.  Munurinn var í kringum 30 stig það sem eftir lifði leikhlutans.  Valsmenn fóru að sýna smá lífsmark í varnarleiknum undir lok leikhlutans en það skilaði litlu því Fjölnismenn hleyptu þeim ekki nær.  Þegar flautað var til hálfleiks höfðu heimamenn 29 stiga forskot, 55-26.

Stigahæstur í hálfleik hjá heimamönnum var Arnþór Guðmundsson með 13 stig en næstir voru Haukur Pálsson með 11 stig og Roy Smallwood með 10.  Hjá Val var Rob Hodgson stigahæstur með 9 stig en næstir voru Hjalti Friðriksson með 5 stig og Jason Harden með 4 stig.  

Spennan var að miklu leiti farin úr leiknum í þriðja leikhluta.  Munurinn minnkaði ekkert og Fjölnismenn svöruðu öllum áhlaupum Valsmanna af fullum krafti.  Valsmenn virtust ætla að grípa til þess ráðs að vinna upp forskot heimamanna af þriggja stiga línunni og á fyrstu þremur mínutum leikhlutans skutu þeir 4 sinnum fyrir utan línuna, aðeins eitt fór ofaní.  Þegar leikhlutinn var hálfnaður stóðu tölur 65-35 og þegar flautað var til loka leikhlutans munurinn ekki minni, 81-49.

Það kom svo skemmtilega á óvart að í fjórða leikhluta kom upp barátta í gestunum sem fóru að henda sér á eftir boltum.  Það var því ekki fyrr en í fjórða leikhluta sem Valsmenn voru farnir að jafna sig á skellinum sem þeir fengu í fyrsta leikhluta.  Fjölnir slakaði aðeins á tauminum og Valsmenn minnkuðu forskotið hægt og rólega niður.  Ragnar Gylfason kom sterkur inn af bekknum og skoraði meðal annars 6 stig á innan við 10 sekúndum sem verður að teljast nokkuð góður árangur.  Það var hins vegar alltof seint í rassinn gripið fyrir Valsmenn sem þurftu að sætta sig við 19 stiga tap, 96-77, og Fjölnismenn fögnuðu vel og innilega í leikslok.  Það verður því spennandi að sjá ungt lið Fjölnis spreyta sig gegn bestu liðum landsins á næsta ári.

Umfjöllun : Gísli Ólafsson
Mynd: Guðmundur Rúnar

Fréttir
- Auglýsing -