spot_img
HomeFréttirFjölnir fékk bikaryfirhalningu frá Keflavík

Fjölnir fékk bikaryfirhalningu frá Keflavík

 
Keflvíkingar eru komnir í úrslit Subwaybikarsins í kvennaflokki eftir öruggan 48-97 sigur á Fjölni í undanúrslitum keppninnar. Liðin mættust í Dalhúsum í Grafarvogi í kvöld þar sem Keflvíkingar stungu af á fyrstu augnablikum leiksins og gerðu út um bikardraum Fjölniskvenna á rétt rúmu korteri. Haukar og Njarðvík mætast í hinum undanúrslitaleiknum á sunnudag en þá ræðst hvaða lið mætir Keflavík í Höllinni í slag um Subwaybikarinn. 
Fljótlega skildu leiðir í Dalhúsum í kvöld. Pálína Gunnlaugsdóttir kom Keflavík í 4-18 með þriggja stiga körfu og Keflvíkingar litu aldrei við eftir það. Varnarleikur Fjölnismanna var í besta falli hriplekur og Gréta María Grétarsdóttir, reynsluboltinn í liði Fjölnis, var komin með þrjár villur eftir fyrsta leikhluta. Leikar stóðu 7-25 Keflavík í vil en það átti bara eftir að syrta betur í álinn fyrir Fjölni.
 
Gestirnir úr Reykjanesbæ voru duglegir að rúlla á öllum sínum leikmönnum og einn þeirra, Eva Rós Guðmundsdóttir, átti fína innkomu er hún gerði sex stig í röð fyrir Keflavík og breytti stöðunni í 11-38. Fjölniskonur virtust bera óttablandna virðingu fyrir andstæðingum sínum í kvöld sem lýsti sér í 26 töpuðum boltum, og það aðeins í fyrri hálfleik.
 
Staðan í hálfleik var 13-61 Keflavík í vil þar sem Kristi Smith var komin með 17 stig hjá Keflavík og ekki leið á löngu uns allir leikmenn Keflavíkurliðsins höfðu náð að komast á blað.
 
Eftir veiklulega frammistöðu í fyrrihálfleik náðu Fjölniskonur að rífa sig lítið eitt upp og unnu þriðja leikhluta 24-20 og staðan 37-81 fyrir fjórða leikhluta. Munurinn var einfaldlega orðinn of mikill fyrir síðbúna árás Fjölnis og því sigldu Keflvíkingar í átt að öruggum 48-97 sigri.
 
Bergdís Ragnarsdóttir var atkvæðamest í liði Fjölnis í kvöld með 15 stig og 7 fráköst en hún á vafalítið eftir að láta betur til sín taka á næstu árum. Þá sækir hún ekki körfuboltann í sjötta lið en hún er systir þeirra Árna og Pálmars Ragnarssona en Árni dvelur nú í Bandaríkjunum við nám og körfuknattleik og gerði garðinn áður frægan hjá Fjölni og þar á eftir með FSu á Selfossi.
 
Hjá Keflavík komust allir á blað og þeirra atkvæðamest var Kristi Smith með 20 stig. Þær Birna Valgarðsdóttir og Bryndís Guðmundsdóttir komu svo næstar með 14 stig en hin unga og bráðefnilega Eva Rós Guðmundsdóttir kom einbeitt af bekknum með 10 stig og 8 fráköst.
 
Dómarar leiksins: Einar Þór Skarphéðinsson og Davíð Tómas Tómasson: Gerðu vel í einstefnuleik.
 
Viðtöl við Jón Halldór og Eggert þjálfara liðanna eftir leik 
 
Ljósmynd/ Eva Rós Guðmundsdóttir nýtti vel tímann sem hún fékk í kvöld í liði Keflavíkur.
 
Fréttir
- Auglýsing -