spot_img
HomeFréttirFjárhagsleg áhrif heimkomu LeBron James til Cleveland

Fjárhagsleg áhrif heimkomu LeBron James til Cleveland

LeBron James er vörumerki. Ekki nóg með það heldur er hann gríðarlega verðmætt vörumerki. Sjálfur metinn á um $270 milljónir. LeBron James sagði eitt sinn að hann hafi orðið “bisnessmaður” um leið og hann steig fyrst á NBA völlinn. Nýkominn úr highschool samdi hann við Nike til sjö ára um $93 milljónir fyrir að nota og síðar hanna skóna sína eigin skó í þeirra nafni. Maðurinn er sí-malandi og vel smurð peningavél.
 
Þótt brottför hans frá Miami hafi verið hógværari en brottförin frá Cleveland árið 2010, þá voru áhrifin þau sömu, ef ekki meiri.
 
Þegar fréttist af því að LeBron James væri með lausan samning myndaðist einhver stórkostlegasta óreiða sem skapast hefur leikmannamarkaði NBA um áraraðir. Fjöldinn allur af liðum fóru að taka til á leikmannalistum sínum til að skapa rými fyrir þennan eina leikmann. Sum þeirra jafnvel sendu frá sér leikmenn eða gengu frá samkomulagi um slíkt til að hafa það launarými sem þyrfti til að bæta við þeim hámarkssamningi sem LeBron var að fara fram á.
 
Cleveland Cavaliers og eigandi liðsins Dan Gilbert geta þakkað því hve átthagafjötrar LeBron eru augljóslega sterkir. Í bréfi hans má túlka ætlanir hans sem svo að til hafi staðið í langan tíma að fara aftur heim og að hann hefði aldrei farið til annars liðs en þá aftur heim til Cleveland.
 
Gleði og ánægja Cleveland-búa við fréttirnar var mikil og ekki síst þá hamingja Gilbert að ná gullkálfinum aftur heim. LeBron skiptir nefnilega Cleveland borg og Cavaliers liðið ekki aðeins máli frá körfuboltasjónarmiðum — fjárhagsleg áhrif mannsins á allt sem nálægt honum kemur eru gríðarleg.
 
Cavaliers er nú metið á um $1 milljarð eftir að hann er genginn í raðir þess — tvöföldun á markaðsverðmæti þess frá því áður.
 
Hvers vegna?
 
Þetta hefur áhrif á allt sem viðkemur liðinu.
 
Það seldist upp á alla leiki Cleveland Cavaliers á næstu leiktíð innan við átta tímum frá því LeBron James tilkynnti um heimkomuna. Allir heilsársmiðar seldust upp. Þetta hefur áhrif á tekjur af sjónvarpsrétti, auglýsingar, sölu á varningi og nánast hvað sem þér dettur í hug.
 
LeBron James áttar sig á þessu. Hann er ekki aðeins vel að sér í því sem gerist inni á vellinum heldur þekkir hann “bisnessinn” í kringum NBA deildina vel einnig.
 
LeBron James samdi aðeins til tveggja ára við Cleveland liðið fyrir þá hámarksupphæð sem í boði var eða $42,1 milljón. Hann hefði getað neglt fimm ára samning fyrir vel yfir $100 milljónir en ólíkt öllum öðrum leikmönnum deildarinnar sér hann hlutina í víðara samhengi.
 
Carmelo Anthony tryggði sér um helgina fimm ára samning við New York Knicks fyrir hámarksupphæð eða um $120 milljónir.
 
Hvers vegna?
 
Því hann er veit að hann hefur ekki sömu tök á deildinni og LeBron James. Vitað var að Anthony yrði með lausan samning í sumar og nokkur lið voru búin að búa sig undir að bera í hann víurnar. Markaðurinn fór hins vegar á hliðina um leið og LeBron losaði sig undan samningi við Miami Heat. Anthony veit einnig að þetta er mögulega í síðasta skiptið sem hann getur tryggt sér hámarkssamning.
 
LeBron varðar ekkert um slíkar áhyggjur. Hann ræður ferðinni. Með þessum stutta samningi setur hann mikla pressu á Cleveland, eiganda þess og stjórnendur.
 
“Þið hafið tvö ár til að koma almennilegu liði saman. Eftir það mun ég endurskoða stöðuna.”
 
Vissulega harka, en þetta vonandi heldur þá Dan Gilbert og félögum á tánum svo þeir halli sér ekki bara aftur og totti vindil því það er búið að landa þeim stóra. LeBron vill vinna og hann er núna á hátindi ferils síns. Faðir tími bíður ekki eftir neinum og því þarf að hefjast handa strax.
 
“I’m not a businessman, I’m a business, man” – Jay-Z
 
 
 
Takið þátt í könnun Karfan.is hér til hægri um hvenær þið haldið að LeBron og Cavaliers takist að vinna næsta titil.
Fréttir
- Auglýsing -