spot_img
HomeFréttirFisher var hetja Lakers - Einum sigri frá titlinum

Fisher var hetja Lakers – Einum sigri frá titlinum

 08:24:38

LA Lakers eru komnir á fremsta hlunn með að tryggja sér NBA-meistaratitilinn, en 91-99 sigur þeirra á Orlando í nótt, eftir framlengingu, þýðir að þeir þurfa einn sigur enn til að landa titlinum.
Derek Fisher var hetja sinna manna í nótt þar sem hann setti tvær mikilvægar 3ja stiga körfur, fyrst þar sem hann jafnaði leikinn þegar um 4 sek voru eftir og svo gerði hann út um leikinn með öðrum þristi undir lok framlengingarinnar.

Nánar hér að neðan…

Lakers voru ekki líklegir til afreka í fyrri hálfleik þar sem tapið í þriðja leiknum hefur mögulega setið í þeim, og voru Orlando, sem voru á heimavelli, með 12 stiga forskot í hálfleik

Í seinni hálfleik hrukku svo skyttur Lakers í gang þar sem Fisher og Trevor Ariza settu 3 þrista með stuttu millibili og áður en langt var liðið voru Lakers komnir yfir og leikurinn galopinn.
Það var síðan á lokasekúndum venjulegs leiktíma að heimamenn héldu að sigurinn væri innan seilingar. Þegar 11 sek voru eftir hafði Dwight Howard, ofurstjarna Magic, tækifæri til að koma sínum mönnum í 5 stiga forystu, en klikkaði á báðum vítum sínum og Fisher nýtti sér það til hins ýtrasta.
„Mér fannst ég klára leikinn með þessari körfu,“ sagði Fisher. „Þetta var karfan sem gaf okkur færi á að klára leikinn þó að það væri enn nokkuð eftir af honum.“
Þetta var sérstaklega sárt fyrir Howard, en miðherjinn ungi hafði átt frábæran leik fyrir utan vítin.
Þetta var í fyrsta sinn síðan Larry Bird og Magic Johnson mættust í úrslitunum 1984 sem tveir leikir í úrslitarimmunni fara í framlengingu. Eftir þetta er staðan 3-1 í einvíginu og einn leikur er enn eftir í Orlando áður en serían klárast í LA, ef þess gerist þörf.

Stigahæstir hjá Lakers: Bryant 32, Gasol 16/10, Ariza 16, Fisher 12.

Stigahæstir hjá Orlando: Turkoglu 25, Howard 16/21/2/9, Pietrus 15, Alston 11.


Tölfræði leiksins

Mynd/AP

ÞJ

Fréttir
- Auglýsing -