spot_img
HomeFréttirFinnur: Verður fyrst raunverulegt í dag

Finnur: Verður fyrst raunverulegt í dag

Finnur Freyr Stefánsson er annar tveggja aðstoðarþjálfara íslenska karlalandsliðsins og hann rétt eins og allir körfuknattleiksáhugamenn bíður spenntur eftir drættinum í dag fyrir riðlakeppni EuroBasket 2015. „Við tökum því sem kemur,“ sagði Finnur í snörpu spjalli við Karfan.is í morgun.
 
 
„Það væri gaman að fá að deila gólfinu með Spánverjum en ég er ekkert búinn að pæla of mikið í þessu. Við tökum því sem kemur enda eru þessir þrír staðir, Frakkland, Þýskaland og Króatía allt spennandi kostir. Helsti kosturinn við Frakkland er þó kannski að þar klárast mótið en Króatía og Þýskaland eru sömuleiðis spennandi,“ sagði Finnur og áréttaði að Ísland mun ekki leika í Lettlandi þar sem Lettar tóku Eista með sér inn í sinn riðil og Eistar og Ísland geta ekki lent saman þar sem þau eru í sama styrkleikaflokki.
 
„Það er klárt að við mætum gríðarlega sterkum þjóðum og við munum líka mæta þeim sem við eigum meiri möguleika gegn,“ sagði Finnur en eru línur eitthvað farnar að skýrast um hve stóran hóp landsliðsþjálfararnir muni kalla inn til æfinga?
 
„Við eigum eftir að ákveða hversu margir verði kallaðir inn á æfingar í byrjun. Við vitum bara klukkan fjögur í dag hverjum við munum spila gegn og þá verður þetta orðið raunverulegt. Þá fyrst held ég að þetta fari að „kikka“ inn – við erum á leiðinni á EuroBasket!
Það verður væntanlega kallaður saman stór hópur í maí fyrir Smáþjóðaleikana en hópurinn sem tekur þátt í Smáþjóðaleikunum gæti vel breyst í sumrinu fyrir EuroBasket. Eftir smáþjóðaleikana taka við æfingaleikir og vonandi einhverjir hér heima enda ljóst að við þurfum að undirbúa okkur vel, verkefnið er stórt og við munum mæta klárir til leiks.“
 
Drátturinn fer fram í Disneylandi í París og hefst kl. 16:00 og verður hann sýndur í beinni útsendingu á RÚV.
 
 
Svona verður dregið í dag – athugið að myndbandið sýnir bara hvernig drátturinn muni fara fram, liðins sem dragast í riðla þarna er ekki endanleg staða (bara svona léttur reminder):
  
Fréttir
- Auglýsing -