Ísland var rétt í þessu að tapa 81-96 gegn Finnum í U18 ára flokki karla. Ísland hafði tökin á leiknum framan af en kæruleysi í þriðja leikhluta kom Finnum á sporið sem að lokum unnu verðskuldaðan sigur. Emil Karel Einarsson var besti maður Íslendinga í dag með 16 stig og 8 fráköst. Ísland leikur svo til úrslita gegn Svíum á morgun kl. 09:15 en úrslitin úr þessum leik gegn Finnum höfðu engin áhrif á framvindu mótsins.
Finnar opnuðu á þrist en Íslendingar voru fljótir að jafna sig og Valur Orri kom okkar mönnum í 12-8 með þriggja stiga körfu og síðar breytti Ágúst ,,stálið“ Orrason stöðunni í 19-12 með þriggja stiga körfu þegar kappinn kom svellkaldur inn af bekknum. Ísland leiddi 24-21 að loknum fyrsta leikhluta og létt yfir hópnum enda rúllað á mörgum leikmönnum.
Snorri Hrafnkelsson átti fína spretti í upphafi annars leikhluta og íslenska liðið var við stjórnartaumana. Skemmtilegt atvik átti sér stað um miðbik leikhlutans þegar Ísland bauð upp á 6 stiga sókn. Emil Karel Einarsson setti þá niður þrist og brotið var um leið á Íslendingum í teignum. Ísland tók því innkast og Matthías Orri fékk boltann og setti niður annan þrist, það tók Ísland því um 3 sekúndur að skora 6 stig og staðan orðin 42-35.
Ísland leiddi svo 49-42 í hálfleik þar sem Matthías Orri Sigurðarson var með 10 stig, Kristófer Acox með 8 og Emil Karel Einarsson með 6.
Finnar mættu með pressu allan völl í upphafi síðari hálfleik og unnu nokkra bolta og fengu auðveldar körfur og kveikti það í strákunum frá þúsundvatnalandinu sem fóru á flug. Íslenska vörnin var hriplek og andlaus og ekkert gekk heldur í sókninni. Finnar byrjðu þriðja leikhluta 18-5 áður en íslenska liðið fór að bíta frá sér með Emil Karel í broddi fylkingar en kappinn setti niður tvo góða þrista og sá síðar minnkaði muninn í 65-76 og þannig stóðu leikar fyrir fjórða leikhluta.
Íslenska liðið fékk fljúgandi byrjun í fjórða leikhluta. Emil Karel Einarsson minnkaði muninn í 74-76 með þriggja stiga körfu og Þorsteinn Ragnarsson minnkaði muninn í 76-78 með gegnumbroti en þá vöknuðu Finnar á ný og voru fljótir að koma muninum aftur upp í 10 stig, 76-86.
Tíminn reyndist of naumur til þess að komast upp að hlið Finna að nýju og þeir finnsku fögnuðu því sínum fyrsta sigri á Norðurlandamótinu með 81-96 sigri gegn Íslendingum.
Emil Karel Einarsson var stigahæstur með 16 stig og 8 fráköst í íslenska liðinu og setti niður alla fimm þristana sína í leiknum! Næstur í röðinni var Kristófer Acox með 11 stig og þeir Matthías Orri og Þorsteinn Ragnarsson bættu báðir við 10 stigum. Valur Orri Valsson var svo með 7 stig, 3 fráköst og 5 stoðsendingar.
18 ára liðið leikur svo til úrslita gegn Svíþjóð á morgun en þessi leikur gegn Finnum hafði engin áhrif á framhaldið hjá liðinu. Leikur Íslands og Svíþjóðar hefst kl. 09:15 á morgun.