Helgi Freyr Margeirsson verður áfram í herbúðum Tindastóls en liðið mun leika í 1. deildinni á næsta tímabili. Feykir.is greinir frá. Í frétt Feykis segir:
Í gær skrifaði Helgi Freyr Margeirsson undir samning við Tindastól um að hann leiki með liðinu næsta vetur í 1. deildinni í körfuboltanum. Helgi hefur leikið með félaginu undanfarin ár og verið lykilmaður en óvíst var hvað hann myndi gera eftir að liðið féll úr úrvalsdeild síðasta tímabil. Helgi segir að komandi leiktíð verði væntanlega áhugaverð.
-Leikmannahópurinn er breyttur og við erum að spila í öðru umhverfi, 1.deildin er ekki alveg sú sama og úrvalsdeildin, en áskorunin er samt sú að við ætlum að fara upp, segir Helgi en bendir á að það séu nokkur félög í deildinni sem þarf virkilega að berjast við til þess að það markmið náist. -Ég hef trú á því að við höfum mannskapinn og getuna til að komast upp, segir Helgi Freyr.