07:00
{mosimage}
(Rudy Fernandez)
Bakvörðurinn Rudy Fernandez sagði í gær að hann hyggði á brottför frá spænska ACB liðinu DKV Joventut og ganga til liðs við Portland Trail Blazers í NBA deildinni. Þetta opinberaði Fernandez á blaðamannafundi á Spáni í gær. Blazers mega ekki tjá sig um málið samkvæmt reglum þar að lútandi í NBA deildinni fyrr en Fernandez skrifar opinberlega undir samning við liðið en það er áætlað að gerist þann 1. júlí næstkomandi.
,,Þessi ákvörðun hefur ekki verið mér auðveld en nú er sá tími kominn að ég þarf á nýrri áskorun að halda. Nú á ég þess kost að uppfylla minn draum og það er að gerast leikmaður í NBA deildinni,” sagði Fernandez.
Kappinn var með 21,2 stig, 4,1 stoðsendingu og 3,1 frákast að meðaltali í leik fyrir DKV Joventut á þessari leiktíð og var nr. 24 í nýliðavalinu 2007 og þá valinn af Phoenix Suns en málin æxluðust þannig að Blazers fengu hann í sínar raðir í nýliðavalinu eins og oft vill verða.
Fernandez mun þéna 900.000 $ á sinni fyrstu leiktíð í NBA deildinni sem u.þ.b. helmingi minna en hann hefði fengið í laun á næstu leiktíð með DKV Joventut en þegar hann mun ganga til liðs við Blazers hittir hann fyrir samlanda sinn Sergio Rodriguez.