Stjarnan byrjar tímabilið vel í Iceland Express deild karla í körfuknattleik en liðið vann í kvöld Keflavík 82-73 í Ásgarði. Jafnt var á flestum tölum þar til í lokin.
Stjörnumenn byrjuðu betur og leiddu14-11 eftir fyrsta leikhluta og 37-33 í hálfleik. Þeir misstu samt forustuna um stund, lentu undir 25-26 en náðu sér strax á strik á ný.
Keflvíkingar náðu aftur yfirhöndinni á kafla í þriðja fjórðungi þegar þeir koust í 43-45 og síðan 45-50. Stjörnumenn jöfnuðu í 50-50 og náðu yfirhöndinni á ný, 55-51. Keflvíkingar minnkuðu muninn í 57-54 fyrir seinasta fjórðunginn.
Gunnar Einarsson jafnaði leikinn strax með þriggja stiga körfu. Garðbæingar náðu aftur tökum á leiknum, náðu fyrst fjögurra stiga forskoti og juku það síðan í tíu stig, 80-70. Á lokakaflanum munaði miklu um harða vörn þeirra sem varði nokkur skot Keflvíkinga fyrir utan stolna bolta og stífar sóknir. Keflvíkingar reyndu pressuvörn í upphafi fjórðungsins en Stjörnumenn, með Justin Shouse í broddi fylkingar, leystu hana.
„Við settum okkur það markmið að vinna tvo af fyrstu þremur leikjunum og nú eigum við fimmtudagsleikinn gegn Snæfelli til góða,“ sagði Teitur Örlygsson, þjálfari Stjörnunnar í samtali við Körfuna í leikslok. „Keflavík var eina liðið sem við áttum eftir að vinna og það tókst í kvöld. Ég var ánægður með leikinn í kvöld, vörnin hjá okkur var mjög góð og baráttan líka.“
Teitur gæti samt haft áhyggjur af því að aðeins byrjunarliðsmennirnir fimm skoruðu fyrir Stjörnuna í kvöld. Það skiptir samt kannski ekki öllu máli þegar þeir fimm sem eru inn á mest allan tímann geta dregið vagninn. Teitur hrósaði sérstaklega Fannari Helgasyni og sagði hann hafa átt „enn einn stórleikinn.“ Það er nokkuð nærri lagi því Fannar skoraði 20 stig, tók 18 fráköst og átti flestar stoðsendingar Stjörnumanna, átta talsins. Justin Shouse skoraði flest stig heimamanna, 24 og Jovan Zdravevski 22. Í liði Keflavíkur skoraði Gunnar Einarsson átján stig og Hörður Axel Vilhjálmsson 17.
Tölfræði leiksins
Gunnar Gunnarsson