spot_img
HomeFréttirFámennar Stjörnustúlkur kafsigldar í Keflavík

Fámennar Stjörnustúlkur kafsigldar í Keflavík

 

Keflavík sigraði Stjörnuna á heimavelli sínum í TM Höllinni með 75 gegn 52. Sigurinn heldur Keflavík áfram í 4. sæti deildarinnar og Stjörnunni í því 6. Skemmtilegur leikur fyrir margar sakir, kannski helsta þá að þarna var um einvígi landsliðsmiðherja Íslenska landsliðssins, þeirra Rögnu Margrétar hjá Stjörnunni og Söndru Lindar fyrir Keflavík.

 

Sandra fer gegn Rögnu

 

Fyrir leikinn vantaði nokkra leikmenn í hóp Stjörnunnar, voru aðeins 8 skráðar til leiks í kvöld. Þar sem að kannski mestur missirinn var erlendur leikmanna þeirra, Chelsie Schweers, en vegna meiðsla (brákaðist á hönd í leik gegn Val) verður hún frá næstu 6-8 vikurnar.

 

Liðin höfðu einusinni spilað á móti hvoru öðru í deildinni. Sá leikur fór fram í Ásgarði þann 21.október síðastliðinn og hann sigraði Stjarnan með 10 stigum, 78-68. Þar sem að Chelsie Schweers skoraði 36 stig tók 10 fráköst og gaf 8 stoðsendingar.

 

Í fyrri hálfleiknum má segja að Stjarnan hafi haldið vel í heimastúlkur. Liðin skiptust á áhlaupum þar sem að Keflavík var skrefinu á undan. Mest skoraði Keflavík 11 stig í röð en Stjörnustúlkur 7. Þegar að fyrsti leikhlutinn endaði var Keflavík með 5 stiga forskot, 17-12, en þegar að liðin héldu til búningsherbergja í hálfleik var sá munur kominn í 8 stig, 35-27.

 

Atkvæðamest fyrir heimastúlkur í fyrri hálfleik var Thelma Dís Ágústsdóttir (6 stig, 4 stolnir boltar, 2 fráköst og 1 stoðsending) á meðan að það var Margrét Kara Sturludóttir sem dróg vagninn fyrir Stjörnuna (8 stig, 4 fráköst og 3 stoðsendingar)

 

 

 

 

Seinni hálfleikur leiksins var aldrei spennandi. Um miðjan 3. leikhlutann tók Keflavík af skarið og kláraði hann með 12 stiga forystu, 52-38. Kannski var þarna komið að því að lykilmenn Stjörnunnar væru hreinlega bensínlausar? En þær höfðu spilað nánast allan leikinn þegar þarna er komið við sögu. Eftirleikurinn auðveldur fyrir Keflavík, sem sigldi merkilega öruggum 23 stiga sigri heim í þeim 4., 75-52.

 

Maður leiksins var leikmaður Keflavíkur, Sandra Lind Þrastardóttir, en hún skoraði 26 stig, tók 16 fráköst og gaf 3 stoðsendingar á þeim rétt rúmu 30 mínútum sem hún spilaði.

 

Punktar:

  • Keflavík tók 48 fráköst á móti 33 hjá Stjörnunni.
  • Keflavík stal 11 boltum á móti 9 hjá Stjörnunni.
  • Stjarnan tapaði 18 boltum í leiknum en Keflavík 19.
  • Skotnýting Keflavíkur var 42.3% (30/71) á móti 34.4% (21/61) hjá Stjörnunni.

 

 

Tölfræði

Myndir

 

Umfjöllun, myndir, viðtöl / Davíð Eldur

 

Viðtöl:

 

Fréttir
- Auglýsing -