spot_img
HomeFréttirErfitt að sitja í stúkunni í spennuleikjum

Erfitt að sitja í stúkunni í spennuleikjum

14:11

{mosimage}

Hörður Gauti og faðir hann Gunnar Gunnarsson virða fyrir sér Íslandsbikarinn 1990

 

Það muna eflaust margir eftir Herði Gauta Gunnarssyni sem lék með KR í kringum 1990 og var

þjálfari yngri landsliða um miðjan tíunda áratuginn. Karfan.is lék forvitni á að vita hvað hann væri að gera í dag og hvernig hafi verið að sitja í stúkunni og sjá hans menn í KR vinna titilinn en sjálfur prófaði hann að vinna þann titil sem leikmaður árið 1990.

 

Hvað er Hörður Gauti Gunnarsson að gera núna?

 

Var að koma af Hvannadalshnjúk eftir 15 klst. göngu, þvílíkt ævintýri.  Annars er ég framkvæmdastjóri jarðvinnuverktakafyrirtækisins Verktakar Magni ehf., hef starfað sem slíkur sl. eitt og hálft ár og hef virkilega gaman af.

 

Eitthvað viðriðinn körfubolta?

 

Afskaplega lítið á fjölunum, vaxtarlagið lýgur ekki, en áhuginn er alltaf til staðar.  Aðeins meira í kringum félagsstarfið þó lítið sé.

 

Nú urðu þínir menn í KR meistarar, hvernig var að fylgjast með utan frá?

 

Þetta var vægast sagt mjög skemmtileg úrslitakeppni og gríðarlega spennandi.  Hún hefur sjálfsagt aldrei verið eins skemmtileg eins og í vetur (fyrir utan tímabilið '89-'90 að sjálfsögðu!), frábærir leikir í öllum einvígjum, bæði í karla og kvennaboltanum og ekki skemmdi fyrir að mínir menn unnu, eitthvað fallegt við það og vakti gamlar og góðar minningar.  Önnur eins stemmning hefur ekki sést á pöllunum eins og hjá KR í þessum úrslitum og á "Miðjan", sá gríðarlega sterki stuðningsmannahópur, það skuldlaust. Það er erfiðast að fylgjast með af pöllunum, maður missir hreinlega hárið af spenningi. Það er rólegra að vera þjálfari á tréverkinu þó það hafi stundum tekið á, en það allra þægilegasta er að vera leikmaður á örlagaríkum stundum, mér leið alltaf vel undir slíkum kringumstæðum

 

Nú varðst þú meistari með KR 1990, hvernig með þann hóp sem vann þá, hittist þið enn í dag og spilið kannski bolta?

 

Það er lítið um það enda hafa menn farið hver í sína áttina, nánast út um allan heim.  Það besta sem við höfum gert eftir titlana (einnig bikarmeistarar '91) er að standa fyrir fjáröflun fyrir ekkju og dætur Anatolij heitins Kovtoun (Úkraínumaður og fyrrum landsliðsmaður Sovétríkjanna sem varð Íslandsmeistari með KR '90) sem lést langt fyrir aldur fram árið 2005.  Þá tókum við á því, samhentir, eins og á parketinu í gamla daga og lögðumst allir á eitt.   

 

Er mikill munur á boltanum núna og 1990? Ef svo er, í hverju felst hann?

 

Leikmenn í dag er tæknilega miklu betri en við vorum þá, þeir eru sneggri og sterkbyggðari.  Þegar ég horfi til baka þá finnst mér stundum eins og það hafi verið leikinn skipulagðari leikur í þá daga og sumpart agaðri.  En á móti þá er boltinn í dag ekki eins kerfisbundinn og áður og það er góð þróun.  Við munum ekkert þróast í þessum leik ef ekki verður hægt að brjótast út úr klóm kerfisbundins bolta.  Hins vegar finnst mér stundum vanta kröftugri og grimmari varnarleik í dag og mér finnst sárlega vanta lið sem leika stífa pressuvörn.

 

Nú varst þú mikið í yngri flokka þjálfun og starfaðir mikið fyrir yngri landsliðin. Fylgist þú enn með því starfi?

 

Ég þjálfaði yngri landsliðin á árunum 1993-1997, fyrst sem aðstoðarþjálfari með vini mínum Axel

Nikulássyni og síðar sem aðalþjálfari með '78 og '80 liðin.  Ég hóf reyndar undirbúning fyrir '82 liðið en hætti fljótlega eftir það. Ég reyni að fylgjast með eins og hægt er enda er þjálfun á þessu stigi eitthvað það alskemmtilegasta sem hægt er að hugsa sér.  Að fá tækifæri til þess að vinna með og móta sterkustu yngri flokka leikmenn landsins á hverjum tíma og fylgja þeim í gegnum erfið mót er frábær lífsreynsla. Annars hefur Ingi Þór (yfirþjálfari KR) verið minn upplýsingamiðill um yngri landsliðin undanfarin misseri.  

 

Hvað finnst þér um árangur yngir landsliða undanfarin ár?

 

Árangur okkar er í raun einstakur.  Þar til fyrir nokkrum árum þótti nokkuð eðlilegt að okkar yngri landslið höfnuðu í 3-5. sæti á NM. Í dag vinnum við þessi mót nokkuð reglulega. Þá eru liðin að komast upp úr forkeppni á EM og fara í gegnum milliriðla og jafnvel að standa sig vel í úrslitum sbr. '88 liðið.  Þó alltaf sé hægt að gera betur sýnir þetta betur en nokkuð annað hvað við höfum byggt upp á stuttum tíma hér á landi.  Áhuginn á íþróttinni er sívaxandi, yngri flokka þjálfun verður sífellt betri með hverju árinu og þetta mun skila okkur áfram sterkum yngri landsliðum. Spurningin er hvenær þessi uppbygging mun skila okkur sterkari A-landsliðum. 

 

Hvað þá að ekki sé hægt  að senda þau á EM í sumar?

 

Auðvitað er það sorglegt.  Fyrir góðan leikmann sem á erindi í yngra landslið eru það vonbrigði að fá ekki tækifæri til þess að spila fyrir Ísland á stórmóti.  Yngri leikmenn þurfa sífellt ný viðfangsefni ef þeir eiga að taka framförum.  Þetta er því ekki góð þróun en vel skiljanleg ef ekki eru til peningar í sjóðum KKÍ.  Það er of langt mál að ræða hér fjármál sambandsins en við þurfum öfluga  styrktaraðila inn í rekstur yngri landsliðanna, öðruvísi er þetta ekki hægt.

 

Nú var pabbi þinn leikmaður KR líkt og þú og hann starfaði einnig mikið í kringum yngri landslið. Er von á þriðju kynslóð af Gunna Gunn í körfuboltahreyfinguna?

 

Hva, hefur þú ekki séð Gunnsó #13 í minnibolta 5-7 ára í KR?  Það vantar ekki keppnisskapið í þann dreng (Gunnar Atli í höfuðið á afa) og það væri gaman að sjá hann í úrslitaleikjum  framtíðarinnar, fyrir KR að sjálfsögðu.  Dóttir mín, Emelía, er ekki enn komin í boltaíþróttir, hefur handboltaskottækni móðurinnar en úr því að ekki var til bleikur KR búningur valdi hún fimleika fram yfir körfu, svo einfalt var það.

 

[email protected]

 

Mynd: Einar Falur Ingólfsson

Fréttir
- Auglýsing -