spot_img
HomeFréttirErfiður annar leikhluti Íslandi að falli í Istanbúl

Erfiður annar leikhluti Íslandi að falli í Istanbúl

Ísland mátti þola tap í kvöld fyrir Tyrklandi í fyrsta leik forkeppni Ólympíuleikanna í Istanbúl. Leikurinn er einn af þremur sem liðið leikur í riðlakeppni mótsins, en til þess að komast á næsta stig þarf liðið að vera í fyrsta eða öðru sæti fjögurra liða riðils mótsins.

Fyrir leik

Það var löngu ljóst fyrir leik að hann yrði mikil brekka fyrir Ísland. Miðað við þá leikmenn sem mættir voru til þess að spila fyrir Tyrkland var ljóst að þeir ætla að gera allt í sínu valdi til þess að vera eitt þeirra 12 liða sem fær að spila á Ólympíuleikunum á næsta ári. Líklega vill Ísland einnig komast á mótið, en þegar tæplega 90 miljón manna körfuboltaþjóð eins og Tyrkland mætir með sína sterkustu leikmenn á meðan að Ísland er tilneytt til að skilja einhverja eftir heima, þá er verkefnið ansi snúið.

Byrjunarlið Íslands

Jón Axel Guðmundsson, Elvar Már Friðriksson, Styrmir Snær Þrastarson, Ægir Þór Steinarsson og Tryggvi Snær Hlinason.

Gangur leiks

Leikurinn fer ágætlega af stað fyrir íslenska liðið, sem eftir þrist frá Styrmi Snæ er 4 stigum yfir þegar 5 mínútur eru liðnar, 6-10. Heimamenn virðast þó ná ágætistökum á leiknum undir lok fjórðungsins. Íslenska liðið er þó ekki langt undan að honum loknum, 20-17. Undir lok fyrri hálfleiksins láta heimamenn svo kné fylgja kviði og eru komnir 23 stigum yfir þegar liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 54-31.

Stigahæstur í liði Íslands í fyrri hálfleiknum var Orri Gunnarsson með 9, en honum næstur var Tryggvi Snær Hlinason með 8 stig.

Íslenska liðið nær ekki að koma inn í seinni hálfleikinn með þeim krafti sem þeir hefðu þurft að gera til þess að komast inn í leikinn og gera hann spennandi, en líkt og Craig Pedersen hafði tekið fram í viðtali við Körfuna fyrr í dag var það ljóst að ef liðið ætlaði sér að ná einhverjum úrslitum í þessum þremur leikjum á fjórðum dögum, þyrftu þeir að huga að því að keyra sig ekki út í þeim fyrsta ef að ekki næðist að halda honum jöfnum. Ísland nær þó aðeins að stöðva blæðinguna frá því í öðrum leikhluta, en eru samt 27 stigum undir fyrir lokaleikhlutann, 78-51. Eftirleikurinn virtist nokkuð einfaldur fyrir heimamenn, sem klára leikinn nokkuð sterkt og enda á að vinna með 27 stigum, 99-72.

Kjarninn

Það vantaði nokkuð mikið upp á að Ísland ætti möguleika á að vinna leik kvöldsins. Tyrkneska liðið er gífurlega gott á sóknarhelmingi vallarins og oft á tíðum virtust þeir ná að gera það sem þeim sýndist til þess að koma boltanum ofaní körfuna. Að sama skapi (fyrir utan Orra) gekk íslenska liðinu bölvanlega að setja stig á töfluna, skutu boltanum illa, náðu sama og ekkert að komast á gjafalínuna og leyfðu heimamönnum að vinna frákastabaráttuna nokkuð örugglega.

Atkvæðamestir

Orri Gunnarsson var bestur í liði Íslands í kvöld með 20 stig og 3 fráköst. Honum næstir komu Tryggvi Snær Hlinason með 8 stig, 4 fráköst og Jón Axel Guðmundsson með 3 stig og 5 fráköst.

Hvað svo?

Á morgun mætir Ísland liði Úkraínu og Búlgaría og Tyrkland eigast við.

Tölfræði leiks

Umfjöllun Körfunnar um íslensku landsliðin er kostuð af Lykil

Fréttir
- Auglýsing -