spot_img
HomeFréttirEr eini Íslendingurinn sem hefur þjálfað í NCAA

Er eini Íslendingurinn sem hefur þjálfað í NCAA

11:00

{mosimage}

Brynjar Brynjarsson, áður Ólafsson, er eini Íslendingurinn sem þjálfað hefur í NCAA háskóladeildinni í Bandaríkjunum. Hann er uppalinn Haukamaður og hélt til Bandaríkjanna sem skiptinemi árið 1991, þá 16 ára gamall. Tilgangurinn var að fara í High School í eitt ár, en síðan eru liðin mörg ár, eins og skáldið sagði, og margt mjög merkilegt á daga hans drifið, sérstaklega út frá körfuboltalegu sjónarmiði. Í dag starfar hann sem aðalþjálfari hjá Marshalltown Community College í Iowa fylki í Bandaríkjunum.

 

„Ég hóf að æfa körfubolta þegar ég var um það bil 10 ára“, segir Brynjar. „Eftir 9. bekkinn, sem nú er 10. bekkur, fór ég til Bandaríkjanna, þannig að körfuboltaferillinn minn á Íslandi var stuttur“. Brynjar hafði ekki kynnst þjálfun af eigin raun á Íslandi enda,  „hvað veit 16 ára gutti um körfubolta“, segir Brynjar.

Það var 1991 sem Brynjar hélt til USA. Hann varð nýorðinn 16 ára eins og áður segir og var tilgangur fararinnar að setjast á skólabekk í Iowa City West High School og dvelja úti í eitt ár. Það varð þó úr að hann ílentist í Bandaríkjunum og 1994 útskrifaðist hann úr skólanum. Við tók nám við Iowa Lakes Community College þar sem hann Brynjar spilaði í byrjunarliði skólans í tvö ár og þaðan lá leiðin í Luther College þar sem hann lék körfubolta og útskrifaðist með viðskiptagráðu.

 Þjálfaraferillinn

En hvert var fyrsta þjálfarastarfið? „Mitt fyrsta starf viðkomandi þjálfun var í Iowa State University. Þá hafði ég útskrifast úr háskóla og fór að hjálpa liðinu þar sem “Graduate assistant”, samhliða því að taka master í viðskiptafræði“. Annars lítur þjálfaraferill Brynjars svona út í Bandaríkjunum:

1999-2001 Iowa State – Graduate Assistant

2001-2002 Marshalltown Community College – aðstoðarþjálfari

2002-2005 University of Idaho – aðstoðarþjálfari

2005-dagsins í dag – Aðalþjálfari Marshalltown Community College

 

Það má með sanni segja að Brynjar sé að upplifa draum margra íslenskra körfuknattleiksþjálfara, því þjálfunin hefur verið hans aðalstarf í 10 ár. „Hér í Marshalltown þarf ég þó að kenna samhliða þjálfuninni en það er óhætt að segja að um 90% af vinnutíma mínum fari í körfuboltaþjálfun og verkefni tengd henni.  Ég vona að þjálfunin verði mitt aðalstarf í framtíðinni og ég eiginlega sé mig ekki fyrir mér vinna önnur störf eins og staðan er nú“.

 

En hvar telur Brynjar styrkleika sína sem körfuboltaþjálfara liggja? „Að gera fólk áreiðanlegt og að það standi við sitt. Sækja tíma í skólanum, mæta á réttum tíma og þannig. Við bendum  á mistök þegar leikmenn gera þau og hættum því ekki fyrr en þeir hætta að gera þau, svo einfalt er það“.

 

En eru einhverjir hlutir sem hann vill bæta sig í sem þjálfari? „Ég vil alltaf taka framförum. Á hverju ári sest ég niður og lít yfir tímabilið á undan, skoða vendipunkta sem urðu til þess að við unnum leik eða töpuðum og reyni að átta mig á því hvort það hefði verið eitthvað annað sem ég hefði getað gert í þeim tilvikum. Ég eyði mörgum klukkutímum yfir sumarið í símanum, spjallandi við aðra þjálfara um hvað þeir geri og þeirra aðferðir“, segir Brynjar.. En hvað með veikleika? „Óþolinmæði“, segir hann, „ég vil að hlutirnir séu gerðir eins og þá á að gera strax“, segir Brynjar.

„Vil gera sem mest sjálfur“

Brynjar er með tvo aðstoðarþjálfara á sínum snærum í Marshalltown. Er einhver verkaskipting á milli hans og þeirra? „Ég vil gera sem mest sjálfur, ef það eru einhver verkefni sem ég vil vinna sjálfur geri ég það og læt ekki aðra um það“, segir Brynjar. „Við höfum ákveðna verkaskiptingu en ég er samt með puttana í öllu sem gert er. Aðstoðarþjálfarar mínir sjá mikið um alla pappírsvinnuna sem er í kring um þetta, skráningu nemenda í bekki, eftirlit með því hvernig leikmönnum gengur í náminu og þannig. En í háskólaþjálfun er eitt sem skiptir mestu máli í því hvernig þú lítur út sem þjálfari, en það eru góðir leikmenn. Við eyðum gríðarlega miklum tíma í að leita að leikmönnum“. En þegar við erum á vellinum sér annar þjálfarinn um bakverði og hinn stóru leikmennina og ég er svo með yfirsýn yfir allt. En allir þjálfarar verða samt sem áður að þekkja alla starfsemi liðsins, þó þeir sjái um stóru mennina eða bakverðina“.

Er ekki „tricky“ þjálfari

Brynjar lætur liðið sitt spila maður á mann vörn nær allan tímann. „Ætli við höfum ekki spilað svæðisvörn kannski í 10 mínútur samanlagt síðasta tímabil, segir hann og bætir við; „ Ég er ekki mjög „tricky“ þjálfari. Næsta tímabil munum við þó breyta meira um varnir þar sem við verðum með stærra og sterkara lið“.

En hvað með sóknarleikinn? „Við erum með nokkrar sóknir, 2-3 gerðir af „passing game“, sem við notum eftir því hvaða uppstillingu við notum inni á vellinum. Í innköstum setjum við venjulega upp leikkerfi, ég vil endilega ná 6-8 stigum úr innkastskerfum í hverjum leik“, segir Brynjar.

Sigrar snúast meira um andlegan styrk en hæfileika

Hverjar eru væntingarnar til liðsins í vetur? „Að við verðum grimmasta liðið um leið og við verðum það sterkasta einnig“, segir Brynjar. Þegar þú ert kominn á þennan stall vinnast leikir ekki á því hversu góðir eða hæfileikaríkir leikmennirnir eru, þetta fer allt eftir því hversu andlega sterka þú nærð að gera þína leikmenn. Að því sögðu erum ætlum við að reyna að vinna 20 leiki í vetur og komast þannig meðal efstu liða í okkar deild. Það er í raun erfitt að útskýra það, en við spilum í erfiðustu deild landsins. Í henni eru aðeins fjögur lið, en á síðustu 11 árum hafa landsmeistarar komið 6 sinnum úr okkar deild. Við erum „Junior College“ (NJCAA), þar sem við höfum leikmenn okkar aðeins í tvö ár“, segir Brynjar.

Á ferðinni í 26 daga í júlí

En hvernig velur Brynjar leikmenn í liðið sitt? „Með símtölum“, segir hann. „Við höfum ekki fjárhagslegt bolmagn til að ég geti ferðast út um allt, svo ég nota samböndin sem ég hef við þá aðila sem ferðast og skoða leikmenn. Ég leita að leikmönnum sem vegna námsörðugleika komast ekki á skólastyrki í fjögurra ára skóla, en eru samt sem áður nógu góðir til að spila háskólabolta. En yfir sumarið, sérstaklega í júlí, ferðast ég um og reyni að sjá þessa stráka.  Sem dæmi var ég á ferðinni í 26 daga í júlí s.l. í þessum tilgangi“, segir Brynjar. Hann segir samkeppnina um leikmenn vera ótrúlega mikla og mikinn tíma fara í símtöl til að reyna að sannfæra leikmennina um að þinn skóli sé sá rétti fyrir þá. „Ef mælt er með þeim af fjögurra ára háskólum er ljóst að þeir eru býsna hæfileikaríkir leikmenn“, segir Brynjar, sem haft hefur leikmenn frá mörgum þjóðum og úr mörgum fylkjum Bandaríkjanna s.s: Maryland, Kaliforníu, Wisconsin, Michigan, Missouri, New York, Illinois, Puerto Rico, Venezuela, og Brasilíu svo eitthvað sé nefnt.

Ekki á leið til Íslands í bráð

Brynjar á 6 ára son, Nicholes sem býr í Minnesota. Hann er aðal ástæða þess að Brynjar flutti frá Idaho, en hann og barnsmóðir hans skildu eftir eins árs samband og hann sá lítið af stráknum í tvö ár þar sem um 1400 mílur skildu þá að. Hann heldur ennþá sambandi við amerísku fjölskylduna sína, sem hann bjó hjá í upphafi ameríkudvalar sinnar og svo á hann auðvitað fjölskyldu á Íslandi. „Það hefur verið erfitt fyrir þau að vita af mér einum hérna úti, en þau vita að ég vil hvergi annars staðar vera. Án þeirra stuðnings væri ég ekki hér í dag, sérstaklega hefur afi minn Brynjar og amma Kristín, hjálpað mér í að láta drauma mína rætast.

 

En hefur Brynjar tíma til að fylgjast eitthvað með boltanum á Íslandi? „Ekki mikinn, mamma heldur með Njarðvík svo ég frétti aðeins af honum frá henni, en þegar tímabilið er í gangi hjá mér er erfitt fyrir fólk að komast í samband við mig og ég veit í raun lítið um hvað fer fram úti í heimi á meðan það stendur yfir“, segir hann.

 

En leitar hugur hans eitthvað til Íslands, langar honum kannski til að koma heim og þjálfa? „Ég get ekkert um það sagt. Ég hef verið í sambandi við fólk vegna mögulegrar aðstoðar minnar við yngri landsliðin en ég tel hæpið að ég fari til Íslands til að þjálfa, ég hef búið í Bandaríkjunum hálfa mína ævi, eða frá því ég var 16 ára og sé mig varla fara héðan í bráð“, sagði Brynjar að lokum.

 

Þeir sem vilja fylgjast með gangi mála hjá Brynjari í Marshall skólanum er bent á heimasíðu körfuknattleiksliðs skólans á slóðinni http://www.iavalley.cc.ia.us/mcc/Athletics/MensBasketball/

 

Karfan.is þakkar honum fyrir áhugavert viðtal.

 

[email protected]

 

Mynd: www.iavalley.edu

Fréttir
- Auglýsing -