09:52
{mosimage}
(Jason Dourisseau, leikmaður KR)
„Þessi tillaga hljómaði þannig að þau lið sem þegar hafa látið sína útlendinga fara myndu spila þannig út tímabilið og úrslitakeppnina einnig. Þá væri komin upp sérstök staða og maður þyrfti ekki að opna blöðin rétt fyrir úrslitakeppni og sjá að einhver lið hafi verið að fá sér útlending," sagði Böðvar Guðjónsson, formaður körfuknattleiksdeildar KR, sem mælti með heiðursmannasamkomulagi á milli liða í Iceland Express-deild karla. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag og á www.visir.is
Böðvar segir að það hafi engin stemning verið fyrir tillögunni. „Ég fékk ekki eitt einasta svar. Menn hringdu bara í Friðrik [Inga Rúnarsson, framkvæmdastjóra KKÍ] og virtust ekki hafa geð í sér til þess að tala við mig.
Það var því miður ekki sá hljómgrunnur fyrir þessu eins og ég hélt eftir að hafa talað við menn í hreyfingunni," sagði Böðvar. Samkvæmt reglum KKÍ geta félög fengið sér Evrópumann í liðið fram í byrjun febrúar en hægt er að bæta Bandaríkjamönnum í lið sín hvenær sem er tímabilsins. KR er með einn Bandaríkjamann í sínu liði, Jason Dourisseau, og hann er ekki á förum úr Vesturbænum eins og staðan er í dag.
„Hann fer ekki eins og staðan er núna. Hlutirnir breytast aftur á móti hratt og komi sú staða upp að við þurfum að hagræða hjá okkur byrja menn eðlilega fyrst að líta á útlendingamálin hjá sér," sagði Böðvar.
Mynd: www.kr.is/karfa