spot_img
HomeFréttirElvar Már með sýningu er Ísland lagði Dani örugglega í Podgorica

Elvar Már með sýningu er Ísland lagði Dani örugglega í Podgorica

Íslenska karlalandsliðið lagði í kvöld Danmörku í öðrum leik sínum í forkeppni undankeppni HM 2023, 70-91. Leikið er í sóttvarnarbúbblu í Podgorica í Svartfjallalandi, en áður hafði liðið tapað opnunarleik riðilsins fyrir heimamönnum í gær. Tveir leikir eru þá eftir hjá Íslandi, en þeir eru eftir helgina, aftur, gegn Svartfellingum og Dönum.

Leikurinn var nokkuð jafn á upphafsmínútunum. Eftir fyrsta leikhluta leiddi Ísland með einu stigi, 22-23. Í öðrum leikhlutanum ná þeir svo að vera skrefinu á undan og fara með sex stiga forystu til búningsherbergja í hálfleik, 43-49.

Í upphafi seinni hálfleiksins lætur Ísland svo kné fylgja kviði. Byggja sér hægt og bítandi upp þægilega forystu og eru fjórtán stigum yfir eftir þrjá leikhluta, 51-65. Í lokaleikhlutanum heldur Ísland svo fætinum á bensíngjöfinni og sigla að lokum mjög svo öruggum 21 stigs sigri í höfn, 70-91.

Atkvæðamestur fyrir Ísland í leiknum var Elvar Már Friðriksson með 30 stig, 5 fráköst og 5 stoðsendingar, en hann setti niður sex þrista úr átta tilraunum í leiknum. Þá bætti Hörður Axel Vilhjálmsson við 11 stigum og 9 fráköstum.

Staðan í riðlinum hjá Íslandi ansi vænleg eftir þennan örugga sigur, en efstu tvö lið hans munu komast áfram og aðeins eitt sitja eftir. Vissulega eiga Danir leik inni gegn Svartfjallalandi, en miðað við frammistöðu kvöldsins verður að teljast ansi ólíklegt bæði að þeir nái í einhver stig þar, sem og að þeir nái að snúa taflinu sér í vil í seinni leiknum gegn Íslandi eftir helgi.

Tölfræði leiks

Myndasafn

Fréttir
- Auglýsing -