spot_img
HomeBónus deildinBónus deild kvennaElín Sóley eftir annað árið með Tulsa Golden Hurricane "Markmiðið að vera...

Elín Sóley eftir annað árið með Tulsa Golden Hurricane “Markmiðið að vera í byrjunarliðinu”

Fyrir rúmum tveimur árum ákvað framherji Vals, Elín Sóley Hrafnkelsdóttir að leggja land undir fót og ganga til liðs við Tulsa Golden Hurricane, en liðið leikur í Ameríkuhluta efstu deildar bandaríska háskólaboltans.

Elín Sóley lék upp alla yngri flokka Breiðabliks, sem og með meistaraflokki félagsins. Þá lék hún einnig með meistaraflokkum Hamars og Vals áður en hún hélt út. Hennar besta tímabil í efstu deild það síðasta áður en hún hélt út, með Val 2017-18, þegar hún skilaði 11 stigum og 7 fráköstum að meðaltali í leik. Þá hefur hún einnig leikið með yngri landsliðum og A landsliði Íslands.

Karfan hafði samband við Elínu og spurði hana aðeins út í þetta síðasta tímabil og lífið í Tulsa.

Hvernig fannst þér þetta annað ár ganga með Tulsa Golden Hurricane?

“Þetta ár var frekar erfitt hjá okkur í körfunni. Ég var sjálf að glíma við meiðsli allt haustið og mátti því ekki byrja að æfa fyrr en í lok október, degi fyrir fyrsta leik. Það tók svo einhvern tíma að koma sér aftur á rétt ról eftir það, í spilaform og álíka. Þá var þjálfarinn minn hins vegar búin að velja það lið sem hún vildi spila á, og mjög erfitt að komast inn í það. Það var því ekki fyrr en í febrúar sem ég fékk að spila eitthvað að viti. Það var hins vegar mikil samkeppni á æfingum og ég bætti mig helling á árinu”

Er mikill munur á lífinu í Tulsa og Reykjavík?

“Já, það er alveg einhver munur. Mér finnst mjög gaman af campus-menningunni, þar sem flestir sem ég þekki í borginni búa í 10 mínútna göngufjarlægð. Það gerir það að verkum að maður er mikið í kringum fólk, t.d. að hittast í hádegis og kvöldmat, og að læra saman. En öðruvísi trúarbragðamenning var það sem kom mér mest á óvart. Tulsa er í miðju biblíubeltinu og því mikið um kristna menningu, en fólk iðkar trú sína á mjög mismunandi hátt hver frá öðrum og margt sem ég hafði ekki séð áður”

Er mikill munur á körfuboltanum sem þú þurftir að aðlagast þarna og hér heima, hver er helsti munurinn?

“Já, það er mikill munur. Helsti munurinn fyrir mig liggur í styrk leikmanni og hraðanum sem er spilað á”

Er mikill munu á tímabilinu hér heima og úti í háskólaboltanum?

“Hann er svolítill. Það koma upp nokkrar vikur á tímabilinu hér heima þar sem eru spilaðir tveir leikir í viku og þá er það talið mikið. Úti þá er það reglan, það eru alltaf spilaðir tveir leikir í viku. Tímabilið úti er líka styttra, byrjar í lok október og búið í seinasta lagi seint í mars”

Nú endaði tímabilið nokkuð snemma hjá flestum í körfuboltaheiminum vegna Covid-19 faraldursins, voru það mikil vonbrigði? Náðuð þið að klára skólann?

“Við náðum að klára okkar tímabil, þannig ekki fyrir mig, en samt mjög skrýtin stemning að vera í Bandaríkjunum þegar þetta var allt af byrja”

Nú varst þú að klára þitt annað ár í skólanum og við gerum ráð fyrir að þú farir aftur út næsta haust. Hver eru helstu markmiðin körfuboltalega fyrir annað tímabilið?

“Ég geri ráð fyrir því að vera heima í sumar, og þá ætla ég að æfa sérstaklega samhæfingu handa og augna, auk þess að styrkja mig. Fyrir tímabilið sjálft þá er markmiðið að vera í byrjunarliðinu”

Fréttir
- Auglýsing -