spot_img
HomeFréttirElías tekur við Þórsurum af Bjarka

Elías tekur við Þórsurum af Bjarka

Elías Kristjánsson er nýr þjálfari Þórs á Akureyri en hann tekur við Þór af Bjarka Ármanni Oddssyni. Þetta kemur fram á thorsport.is en þar segir einnig að Elías muni ekki leika með liðinu á næsta tímabili.
 
 
Af heimasíðu Þórs:
 
Stefán Vilberg Leifsson formaður körfuknattleiksdeildar “Við í stjórninni erum ánægð með að hafa náð að landa samningum við Ella varðandi þjálfarastöðuna en hann var búinn að gefa það út áður að hann ætlaði sér ekki að spila næsta vetur. Þrátt fyrir að vera ungur að árum hefur hann mikla reynslu af körfubolta og hefur spilað undir og lært af mörgum færustu þjálfurum landsins. Auk þess hefur hann staðið sig vel með yngri flokka hjá okkur“.
En hvað með leikmannahópinn hver er staðan þar?
 
,,Af leikmannamálum er það að frétta að við erum ennþá í viðræðum við okkar lykilmenn um það að spila með okkur næsta vetur og munu þau mál skýrast á næstu vikum. Auk þess erum við að skoða aðra möguleika á að styrkja liðið” sagði Stefán Vilberg Leifsson. 
 
 Elías Kristjánsson sagði í stuttu spjalli við heimasíðu Þórs að hann sé mjög þakklátur fyrir að fá tækifæri til að þjálfa fyrstu deildarlið og ekki skemmir að það sé Þór frá Akureyri, félag sem hann hafi spilað fyrir sl. þrjú ár. 
 
,,Það er mikill kostur að hafa spilað með þessum strákum áður vegna þess að ég veit þá hvar styrkleiki þeirra liggur. Ég er mjög spenntur fyrir þessu nýja verkefni en geri mér jafnframt grein fyrir því að þetta verður krefjandi og mikil vinna. Fyrsta mál á dagskrá er að setja saman lið og auðvitað verður aukin áhersla lögð á að reyna halda sama mannskap og í fyrra. Við erum þó að þreifa fyrir okkur og ræða við nokkra leikmenn sem hafa sýnt áhuga á að koma norður“. 
 
Er þjálfarinn búinn að setja sér markmið fyrir komandi vetur?
 
,,Það er ekki alveg tímabært að ræða markmiðið fyrir næsta vetur þar sem ég vill fyrst ræða við leikmenn um hvaða raunhæfu markmið við eigum að setja okkur. Menn hljóta þó alltaf að fara í alla leiki til að vinna þá“ sagði Elías Kristjánsson nýráðinn þjálfari Þórs að lokum. 
  
Fréttir
- Auglýsing -