spot_img
HomeBikarkeppniEkki var það fallegt en þó nóg hjá Þórsurum

Ekki var það fallegt en þó nóg hjá Þórsurum

Þór heimsótti Dalhús í 32-liða úrslitum VÍS-bikarsins og vann þar ellefu stiga sigur á Fjölni. Þór er því komið í 16-liða úrslit keppninnar en Fjölnir getur einbeitt sér alfarið að 1. deildinni.


Gangur leiks


Jordan Blount setti fyrstu fjögur stig leiksins og fyrstu átta stig Þórs en DJ skoraði fyrstu stig Fjölnis í þriðju sókn liðsins. Fjölnir komst yfir í 17-16 eftir tæplega sjö mínútna leik og var það í eina skiptið sem Fjölnir leiddi í leiknum. Hilmir og Blount sáu um að skora, Hilmir með rúmlega helming stiga Fjölnis og Blount gerði slíkt hið sama fyrir Þór.
Staðan í hálfleik var 41-52 gestunum í vil. Körfuboltinn sem liðin voru að spila var á löngum köflum alls ekki fallegur og til að byrja með var Blount mikið í hetjubolta hjá Þór og DJ var að reyna erfiða hluti sóknarlega hjá Fjölni. Skemmst er frá því að segja að það gekk talsvert betur hjá Blount.


Fjölnir náði góðum spretti í þriðja leikhluta og minnkaði muninn niður í tvö stig en gestirnir gáfu þá aftur í og komu muninum yfir tíu stigin. Fjórði leikhluti var aldrei neitt svakalega spennandi, munurinn hélst í átta stigum ea meira og sigur Þórs nokkuð öruggur. Frammistaða Þórs er þó ákveðið áhyggjuefni og sérstaklega leikur Johnathan Edward Lawton sem gat ekkert á þeim tuttugu mínútum sem hann spilaði, svo farið sé fínt í hlutina.

Hetja leiksins


Jordan Blount var yfirburðar besti maður Þórs í leiknum. Skilaði niður 24 stigum á tæpum sautján mínútum. Skotvalið hans var ekkert alltaf heillandi en 9-15 af gólfinu er ekkert til að kvarta yfir.


Hilmir Arnarson heillaði þó eiginlega mest en hann skilaði niður nítján stigum, var 5-5 fyrir utan þriggja stiga línuna og hélt Fjölni inn í leiknum í upphafi leiks. Daníel Ágúst Halldórsson var einnig flottur með fjórtán stig, sjö fráköst og átta stoðsendingar.


Íslenski kjarninn hjá Fjölni er öflugur og frammistaðan í dag klárlega eitthvað til að byggja ofan á.

DJ fór illa með góða sénsa og spilamennska Þórs áhyggjuefni

Dwayne Ross Foreman Jr., bandaríski leikmaður Fjölnis,virkaði ekki sannfærandi í þessum leik. Hann var mikið að reyna sjálfur og var ekki nema 8-18 í skotum, langflestum við körfuna og var vel undir 50% af vítalínunni. Hann fiskaði sjö villur svo ef hann getur bætt skotnýtinguna og vítanýtinguna verður hann talsvert meira ógnvekjandi fyrir andstæðinga Fjölnis. Mirza Sarajlija lék ekki með Fjölni í leiknum. Þórsarar eru í Subway-deildinni, deild ofar en Fjölnir. Með þessari frammistöðu vinnur liðið engan deildarleik í vetur, ég held það sé á hreinu.

Byrjunarlið Fjölnis: DJ, Daníel Ágúst, Rafn Kristján, Hilmir og Viktor Máni
Byrjunarlið Þórs: Jonathan Edwards, Atle Ndiaye, Dúi Þór, Eric Fongue og Jordan Blount.
Dómarar leiksins: Aðalsteinn Hjartarson, Sigurður Jónsson
Áhorfendur: 49

Tölfræði leiks

Myndasafn (Bára Dröfn)

Fréttir
- Auglýsing -