spot_img
HomeFréttir"Ekkert nema titlar er ásættanlegur árangur"

“Ekkert nema titlar er ásættanlegur árangur”

 

Það fer ekki á milli mála hvaða lið var besta lið Dominos deildar karla þetta tímabilið. KR sigraði deildar, bikar og Íslandsmeistaratitilinn. Eini titillinn sem þeir náðu ekki í var meistarar meistaranna, en honum töpuðu þeir til Þórs í Þorlákshöfn. Semsagt, næstum alla titla sem í boði voru. Það sem meira er, að þetta er annað árið í röð sem að þeir vinna þessa titla. Fjórði Íslandsmeistaratitill liðsins í röð sem að liðið vinnur, en eftir að úrslitakeppnin var sett á hefur aðeins Njarðvík frá árinu 1984-1987 tekist að gera slíkt áður. Í heildina (fyrir og með úrslitakeppni) er liðið nú búið að vinna fleiri Íslandsmeistaratitla heldur en nokkuð annað lið, eða 16 talsins.

 

Kvennalið félagsins, sem er hið næst sigursælasta í sögunni með 14 Íslandsmeistaratitla (á eftir Keflavík með 16), hefur hinsvegar verið í uppbyggingarstarfi síðastliðin ár. Eru sem stendur í 1. deildinni, þar sem að þær lentu í 3. sæti á síðasta tímabili.

 

Við ákváðum að heyra í Böðvari Guðjónssyni, stjórnarmeðlimi hjá félaginu, fyrrum formanni þess, en núverandi varaformanni og formanni meistaraflokksráðs karla. Böðvar kom fyrst inn í stjórn félagsins árið 2004 og hefur því verið í kringum þessa uppbyggingu félagsins síðastliðinn rúma áratug. Tíma sem varla getur kallast annað en gullöld félagsins.

 

 

 

Nú er enn eitt flott tímabilið á enda hjá ykkur. Verjið bikarmeistartitilinn, verjið deildarmeistaratitilinn og verjið Íslandsmeistaratitilinn karlamegin.

Var þetta eitthvað sem að var hægt að búast við fyrir tímabilið?

"Auðvitað voru þessi markmið háleit enda fáheyrt að lið í boltaiþróttum vinni Íslandsmeistaratitil 4 ár í röð og bikarkeppnina annað ár í röð að auki.  Jón Arnór og Pavel hófu tímabilið á bekknum vegna meiðsla en þá stigu aðrir upp og gríðarlega sterkir sigrar litu dagsins ljós í byrjun. Erlendi leikmaðurinn stóð ekki undir væntingum og eflaust margir sem efuðust um liðið en leikmenn og þjálfarar sýndu mikinn styrk og seiglu og liðið var í toppbaráttu allt tímabilið. Sumir sigrar erfiðari en aðrir eins og gengur en trúin var alltaf til staðar enda vissum við að við erum með besta liðið á landinu, hefðina til að vinna titla, umgjörð sem tekið er eftir og allt þetta hjálpaði okkur að ná settum markmiðum."

 

Krafan mikil í Vesturbænum?

"Krafan er alltaf mikil í Vesturbænum. Ekkert nema titlar er ásættanlegur árangur á þeim bænum og allt annað vonbrigði.  Stjórn deildarinnar hefur verið skipuð einstaklingum sem þekkja félagið og hvað það stendur fyrir. Frá því að ég byrjaði í stjórn árið 2004 hefur kjarninn haldist sá sami sem er gríðarlega mikilvægt alveg eins og í liðinu sjálfu. Við lærum alltaf eitthvað nýtt á hverju tímabili og höfum lært hvernig eigi að bregðast við þeirri pressu sem á liðinu er enda mjög eðlilegt að ganga í gegnum einhverja öldudali á hverju tímabili. En trúin að vinna þá titla sem í boði eru er alltaf til staðar og það hjálpar okkur að tækla pressuna og nota hana sem jákvætt verkfæri til að ná okkar markmiðum. Það er mikil samheldni innan vallar sem utan og forréttindi að fá að starfa í sjálfboðaliðavinnu í stærsta félagi á Íslandi."

 

 

Svolítið ólíkt verkefni í gangi kvennamegin hjá ykkur. Hver er stefnan þar?

"Stjórn deildarinnar tók þá ákvörðun að fara í uppbyggingu í kvennastarfinu. Byggja upp leikmenn líkt og við höfum gert karlamegin og keyrt á uppöldum leikmönnum. Sú uppbygging hefur gengið vel. Leikmenn eru gríðarlega ánægðir og njóta þess að læra nýja hluti í þeirri vegferð að fara aftur í úrvalsdeild og keppa meðal þeirra bestu. Við sáum t.d. Keflavíkurliðið sem vann báða titlana í ár. Allt uppaldar stelpur sem er frábært að horfa á og þangað viljum við fara með okkar kvennalið. Það hefur einnig verið mikil fjölgun í yngriflokkum kvenna og það er svo sannarlega ánægjulegt og því horfum við til næstu ári með mikilli ánægjuog bartsýni þegar kemur að kvennastarfinu almennt í körfuknattleiksdeild KR."

 

 

Nú hefur þú verið við taumana hjá KR í dálítinn tíma. Áttu þér eitthvað uppáhalds ár eða stund frá þessum tíma?

"Það er rétt. Ég fór í stjórn 2004 og tók við formennsku 2006 að mig minnir. Undafarin 3 ár hef ég verið í Stjórn sem varaformaður og formaður meistaraflokksráðs karla. Guðrún Kristmundsdóttir sem tók við af mér hefur reynst happafengur fyrir félagið og svo sannarlega staðið undir væntingum og það eru forréttindi að vinna með henni. Eins og gefur að skilja þá hafa stundirnar verið margar og frá árinu 2007 hafa unnist 7 íslandsmeistaratitlar, 3 Bikarmeistaratitlar og að ég held 8 Deildarmeistaratitlar. Titilinn 2007 sem var sá fyrsti var einstaklega kærkomin enda voru Njarðvíkingar ríkjandi Íslandsmeistar með heimavallarétt. Troðfullt hús og stemmning í leik 4 í þeirri seríu er auðvitað eftirminnilegt.  Allir oddaleikirnir á þessu tímabili frá 2007 til dagsins í dag eru auðvitað mikið uppáhalds. Mínar uppáhaldsstundir í gegnum tíðina eru í DHL-Höllinni frammi fyrir troðfullu húsi. Það er mjög gefandi að fá tækifæri í að búa til þá umgjörð, vera hluti af frábærum hóp sem hefur með framkvæmd þessara leikja að gera, gleðin sem fylgir sigrunum og öllu því góða fólki  sem ég hef kynnst í gegnum körfuna og störf mín fyrir KR."

 

 

Hvernig finnst þér körfuboltinn hafa þróast á þessum árum?

"Þróunin hefur verið mjög góð. Leikmenn alltaf að verða betri og betri og mikið af ungum leikmönnum sem hafa breyst í alvöru leikmenn og eru í lykilhluverkum í sínum liðum. 4+1 reglan hefur hjálpað mikið í að þessir ungu leikmenn hafa fengið tækifæri í sínum liðum enda fátt eins leiðinlegra að horfa á 2 eða fleiri erlenda leikmenn taka 80%-90% af skotum síns liðs þar sem ungir leikmenn eru í algjöru aukahlutverki. Körfuboltinn hefur líka verið að sækja í sig veðri ár frá ári og með aðkomu  365 Miðla þá hefur íþróttin tekið mikið stökk og áhuginn aukist gríðarlega meðal fólks. Domino´s á mikið hrós skilið fyrir að koma að báðum deildum og Dominos körfuboltakvöld heldur betur slegið í gegn. Garðar Örn, Kjartan Atli og hópurinn í kringum þá framleiðslu eiga mikla þakkir skilið fyrir frábæra umfjöllun og umgjörð! Frábært árangur íslenska landsliðsins hefur svo aukið enn frekar áhuga á íþróttinni almennt."

 

 

Mikil uppbygging í gangi í KR, titlar að vinnast með heimamönnum í lykilstöðum. Hvað þarf til að gera slíkt og halda því gangandi svona?

"Yngriflokka starfið hefur verið í miklum blóma og fjöldi iðkenda aukist gríðarlega. Þar koma auðvitað margir frábærir þjálfarar við sögu og það virðist vera mikill áhugi fyrir að þjálfa í  KR. Það er erfitt að taka einhvern einn þjálfara út en auðvitað koma nöfn upp í hugann eins og Ingi Þór Steinþórsson, Benedikt Guðmundsson, Jóhannes Árnason og margir fleiri. Og auðvitað núverandi þjálfara meistaraflokks karla Finnur Freyr Stefánsson. Allt uppaldir KR-ingar sem skilja kúlturinn í félaginu og hvað það er að vera KR-ingur! Það þarf mikla samheldni, skipulag, plan til margra ára og þolinmæði. Það er eiginlega uppskriftin  af því að vera með heimamenn í lykilstöðum og hafa í huga að yngriflokkastarfið er mikilvægast partur af heildarumgjörðinni í allri deildinni. Það eru mikil forréttindi að sjá allan þann fjölda af stelpum og strákum sem hafa farið í gegnum starfið okkar og fátt eins skemmtilegra en að sjá krakkana mæta á leiki meistaraflokkana með foreldrum sínum að ég tali nú ekki um leiki yngri flokkana þar sem áhuginn og gleðin skín úr augum leikmanna og áhorfenda." 

 

 

Væntanlega margt smátt sem hjálpast að við rekstur, samsetningu svona starfsemi, en ef við tökum árangur þessa karlaliðs síðustu tímabil. Ef þú yrðir að nefna 1-2 hluti, hverju myndir þú þakka þetta góða gengi?

"Það er erfitt að nefna 1-2 hluti en auðvitað er þessi innsti kjarni mér mikilvægastur. Stjórn, leikmenn og þjálfarar sem hafa staðið saman allan þennan tíma, aldrei látið mótlæti brjóta sig, lært af vonbrigðum og glaðst yfir sigrum og öllum þeim titlum sem unnist hafa. Samheldnin og trúin á því prógrammi sem við höfum verið að vinna með í vel yfir 10 ár er lykillinn af þessum árangri.  Það er skemmtilegt að hugsa til þess þegar við Páll Kolbeinsson hittumst 2005 og ræddum hvað við vildum og ætluðum okkar á næstu árum. Páll hefur verið minn nánasti samstarfsmaður og það er ánægjulegt að okkar plön sem sumir kölluðu drauma hafa orðið að veruleika og þessi innsti kjarni jafnframt trúað eins og við gerðum frá byrjun."

 

 

Hvað sérð þú meistaraflokka félagsins gera í sumar og hvaða árangur sérðu fyrir þessi lið á næsta tímabili?

"Það eru litlar breytingar framundan. Þórir Þorbjarnar a.k.a Tóti Túrbó er á leið til Bandaríkjanna í háskóla en aðrir taka slaginn á næsta tímabili. Markmiðin eru skýr fyrir næsta tímabil og að auki mun stjórn deildarinnar skoða vel og vandlega þáttöku í Evrópukeppni enda það eðlilegt skref fyrir lið sem hefur unnið Íslandsmeistaratitilinn 4 ár í röð."

 

Fréttir
- Auglýsing -