spot_img
HomeFréttirEiríkur snýr aftur: Fyrsti sigur ÍR í höfn (Umfjöllun)

Eiríkur snýr aftur: Fyrsti sigur ÍR í höfn (Umfjöllun)

 
ÍR landaði í kvöld sínum fyrstu stigum í Iceland Express deild karla með 97-73 sigri á Tindastól. Eiríkur margreyndi Önundarson lék sinn fyrsta leik á tímabilinu og þá snéri Kristinn Jónasson einnig inn á parketið á nýjan leik en báðir hafa kapparnir verið að glíma við meiðsli hjá ÍR. Stólarnir eru sem fyrr á botni deildarinnar en náðu sínu hæsta stigaskori þetta tímabilið með því að setja niður 73 stig í Hellinum. Vandinn hjá Stólunum er sóknin, stirð og hugmyndasnauð en þeir geta barist svo það ætti að styttast í fyrsta sigurleikinn.
Gestirnir frá Sauðárkróki komust í 0-7 áður en Ásgeir Örn Hlöðversson kom ÍR á blað, Ásgeir átti fínar rispur hjá ÍR í kvöld með 9 stig og 4 stoðsendingar. Friðrik Hreinsson var ógnandi framan af leik hjá Stólunum en það voru ÍR-ingar sem leiddu 25-20 eftir fyrsta leikhluta þar sem Hr. Póstur Nemanja Sovic gerði 10 af 19 fyrstu stigum ÍR.
 
Kelly Beidler tróð tvisvar með látum í upphafi annars leikhluta og virtust ÍR-ingar ætla að stinga af. Gestirnir fóru þá að pressa og náðu að riðla sóknarleik ÍR lítið eitt en heimamenn leiddu 49-42 í hálfleik. Sovic var með 16 stig hjá ÍR í leikhléi og þeir Josh Rivers og Dragoljub Kitanovic voru með 11 hjá gestunum.
 
Tindastóll náði að minnka muninn í 49-46 í upphafi síðari hálfleiks og fóru snögglega í svæðisvörn sem gaf ágætlega til að byrja með. Eiríkur Öndunarson mætti með þrist og breytti stöðunni í 66-57 sem sleit heimamenn frá gestunum. Svæðisvörn Stólanna var farin að riðla undir lok leikhlutans og ÍR-ingar leystu hana vel á köflum og leiddu því 70-59 fyrir fjórða leikhluta.
 
Helgi Rafn Viggósson varð að kveðja leikinn snemma í fjórða leikhluta með fimm villur, 9 stig og 12 fráköst. Skömmu síðar setti Eiríkur niður spurningamerki fyrir ÍR, þristur sem breytti stöðunni í 78-65 og rúmar 6 mínútur til leiksloka. Spurning hvort Stólarnir ættu bensín í lokasprettinn með jaxlinn Helga Rafn utan vallar? Svarið var nei, munurinn gerði ekkert annað en aukast og lokatölur reyndust 97-73.
 
ÍR-ingar eru komnir á sporið, 2 stig loksins í hús í Hellinum en Tindastóll enn á botni deildarinnar án stiga. Fagnaðarefni fyrir Breiðhyltinga að fá Eirík og Kristinn aftur í hópinn og á sama tíma er sóknarleikur Stólanna þeirra helsta áhyggjuefni.
 
ÍR: Nemanja Sovic 28/4 fráköst, Kelly Biedler 21/11 fráköst/4 varin skot, Ásgeir Örn Hlöðversson 9, Eiríkur Önundarson 8, Karolis Marcinkevicius 7, Vilhjálmur Steinarsson 7, Níels Dungal 5/6 fráköst, Kristinn Jónasson 4/5 fráköst, Bjarni Valgeirsson 3, Hjalti Friðriksson 3, Davíð Þór Fritzson 2, Vilhjálmur Theodór Jónsson 0.
 
Tindastóll: Josh Rivers 17/8 fráköst/5 stoðsendingar, Dragoljub Kitanovic 17, Friðrik Hreinsson 11, Helgi Rafn Viggósson 9/12 fráköst, Dimitar Petrushev 6, Einar Bjarni Einarsson 4, Hreinn Gunnar Birgisson 4, Helgi Freyr Margeirsson 3, Þorbergur Ólafsson 2, Radoslav Kolev 0, Pálmi Geir Jónsson 0.
 
Dómarar: Björgvin Rúnarsson, Steinar Orri Sigurðsson
 
Ljósmynd/ JBÓ Ásgeir Örn Hlöðversson barðist vel fyrir ÍR í kvöld.
 
Myndasafn og umfjöllun: Jón Björn Ólafsson – nonni@karfan.is  
Fréttir
- Auglýsing -