Ekki tókst að ná í fyrsta sigurinn í dag á Eurobasket þrátt fyrir frábæra byrjun gegn Slóvenum. 102:75 varð loka niðurstaða dagsins þar sem að Slóvenar voru töluvert betri en okkar menn. Martin Hermannsson var stigahæstur okkar manna með 18 stig og næstur honum voru Hlynur Bæringsson og Haukur Helgi Pálsson með 14 stig. Þrátt fyrir 27 stiga tap þá má segja að liðið hafi sýnt fína takta á köflum í leiknum en varnarleikurinn var okkur erfiður gegn létt leikandi og sterku liði Slóvena sem eru enn sem komið er ósigrandi á mótinu og spila síðasta leik sinn í riðlakeppni á morgun gegn Frökkum.
Karfan.is ætlar eftir hvern leik íslenska karlalandsliðsins að vera með einkunnagjöf sem hefur það að markmiði að endurspegla áhrif hvers leikmanns á leikinn. Nokkrir þættir koma við sögu í mati á leikmönnunum og þar má nefna væntingar til leikmannsins, tölfræði, varnarleikur og svo auðvitað einfaldlega geðþótti undirritaðs. Einungis eru gefnar einkunnir fyrir 10 eða fleiri spilaðar mínútur.
Kvarðann má sjá hér fyrir neðan einkunnagjöfina.
Martin Hermannsson – 8
Frábær leikur hjá Martin. Leiddi liðið í sókninni og sérstaklega í seinni hálfleik þegar lítið gekk upp. Sýndi leiðtogahæfileika á vellinum í dag og skilaði huggulegri tölfræði: 18 stig, 5 fráköst, 4 stoðsendingar og 5 stolnir boltar.
Kristófer Acox – 5
Fór lítið fyrir Kristófer í dag. Lék meirihluta síns leiktíma í lokin, gerir alla litlu hlutina frábærlega en komst ekki í sérstakan takt við leikinn.
Hlynur Bæringsson – 6
Allt annað að sjá Hlyn í dag. Barátta hans skilaði í dag góðri frammistöðu og þá sérstaklega í fyrri hálfleik þar sem hann sýndi frábæra baráttu og leikgleði.
Jón Arnór Stefánsson – 6
Ágætur leikur hjá Jóni. Verður ekki tekið af honum að hann skilur allt eftir á vellinum og er óhræddur við að stíga upp þegar þarf á. Hélt endalaust áfram en hitti því miður illa í dag.
Hörður Axel Vilhjálmsson – 4
Slakasti leikur Harðar sóknarlega á mótinu. Komst aldrei í takt við leikinn en hélt áfram og gafst aldrei upp.
Elvar Friðriksson – 7
Ferskir vindar blása við innkomu Elvars á þessu móti. Hélt hraðanum á liðnu góðu og var virkilega ákveðinn sóknarlega. Algjörlega óhræddur og gerði fá mistök í vörninni.
Pavel Ermolinskij – 5
Góður varnarlega og frákastaði vel. Komst ekki í gang sóknarlega og fann liðsfélaga sína ekki.
Haukur Helgi Pálsson – 6
Algjörlega frábær fyrri hálfleikur hjá Hauki. Hitti frábærlega og var útum allan völl. Tókst líkt og liðinu ekki að halda því uppi í seinni hálfleik.
Tryggvi Snær Hlinason – 4
Þetta mót er mikill skóli fyrir Tryggva. Hann fær lítið pláss sóknarlega sem hann hefur þó gert ágætlega að nýta. Varnarlega átti Tryggvi erfiðan dag og hefði mátt vera harðari í frákastabarátunni.
Logi Gunnarsson – 4
Afmælisbarnið fékk lítið pláss til að skjóta en var um allan völl að búa til pláss og öskra menn áfram. Komst lítið inní sóknarleikinn.
Brynjar Þór Björnsson
Spilaði of lítið
Ægir Þór Steinarsson
Spilaði of lítið til að fá einkunn en hélt hraðanum á leiknum vel þegar hann var inná.
Kvarðinn:
10 – Stórkostlegur leikur, leiddi liðið til sigurs með tilþrifum á báðum endum vallarins og frábærri tölfræði.
9 – Frábær leikur, nokkurn veginn óaðfinnanlega spilaður og frábær tölfræði.
8 – Virkilega góður leikur, góð tölfræði í bland við sjáanleg áhrif á leikinn.
7 – Góður leikur, getur verið frábær á öðrum enda vallarins eða góður í bæði vörn og sókn.
6 – Fínn leikur, leikmaðurinn skilaði sínu og gerði lítið af mistökum sem kostuðu liðið.
5 – Allt í lagi, leikmaðurinn hafði ekki sjáanleg áhrif á leikinn til góðs eða ills.
4 – Ekki góður leikur, leikmaðurinn hafði sjáanleg vond áhrif á heildarniðurstöðu leiksins.
3 – Vondur leikur, leikmaðurinn með vonda tölfræði og slakur í vörn og sókn.
2 – Mjög slakur leikur, léleg tölfræði í bland við sjáanleg slæm áhrif á liðið.
1 – Frammistaðan arfaslök. Skemmdi fyrir liðsfélögum og var í engum takt.
Mynd / Skúli B. Sigurðsson