21:09
{mosimage}
(U 16 á NM í Solna í sumarbyrjun)
16 ára landslið Íslands lá gegn Svartfellingum í B-deild Evrópukeppninnar í dag þrátt fyrir að hafa leitt í hálfleik. Þungur þriðji leikhluti varð íslenska liðinu að falli og á morgun verður hörkuleikur gegn Dönum. Karfan.is náði á Einar Árna Jóhannsson þjálfara 16 ára liðsins sem segir sigur gegn Dönum á morgun gefa íslenska liðinu þriðja sætið í riðlinum.
Hvað átti sér stað í 3. leikhluta gegn Svartfellingum. Fór allt í baklás?
Fyrir það fyrsta þá voru Svartfellingar búnir að vinna alla leikina sína og við komum þeim á óvart með pressuvörn og duttum niður í svæði sem þeir voru ekki að lesa vel. Þeir pressuðu stíft en tóku mikla sénsa og við leystum pressuna vel og leiddum með 6 stigum í hálfleik. Við ræddum það svosem að þeir kæmu mun aggressívari inn í síðari hálfleikinn sem varð raunin og við töpuðum boltum gegn pressunni sem skilaði þeim auðveldum körfum. Við náðum einfaldlega allt of fáum skotum á körfuna í leikhlutanum og þeir skora auðveldar körfur eftir stolna bolta.
Þessi ósigur í dag, hvaða þýðingu hefur hann fyrir íslenska liðið upp á framhaldið að gera?
Leikurinn í dag taldi í raun ekkert. Við vissum það fyrir leikinn í dag að við þyrftum að vinna Dani til að eiga möguleika á þriðja eða fjórða sætinu í riðlinum. Þetta var á móti gott próf á okkur gegn frábæru körfuboltaliði og þrír af fjórum leikhlutum voru virkilega góðir og við unnum þá, en þriðji leikhlutinn varð okkur einfaldlega af falli.
Nú eru það Danir í næsta leik sem þið unnuð á Norðurlandamótinu, er um skyldusigur að ræða eða er von á hörkuleik?
Við unnum Dani í hörkuleik á NM í leik sem gat endað báðum megin. Danirnir hafa ekki náð sér á strik fyrr en í dag er þeir vinna stórgóðan sigur á Hollendingum og á morgun er einfaldlega úrslitaleikur um hvort liðið fari inn í 9-16 sætið. Sigur fyrir okkur gefur okkur þriðja sætið (Austurríki þá fjögur) en Danir ná fjórða sætinu ef þeir vinna (Austurríki þá þrjú). Við reiknum því með hörkuleik á morgun og að sjálfsögðu trúum við því að við
löndum sigri í þeim leik.
Ísland og Danmörk mætast á morgun kl. 17:00 að íslenskum tíma.