spot_img
HomeFréttirEinar Árni yfirgefur Kópavoginn

Einar Árni yfirgefur Kópavoginn

22:16

{mosimage}

Breiðabliksmenn sem duttu út úr úrslitakeppninni í kvöld sjá nú á eftir þjálfara sínum Einari Árna Jóhannssyni. Einar Árni tilkynnti eftir leikinn í kvöld að hann muni ekki halda áfram að þjálfa í Kópavoginum og þurfa Blikar því að leggja út netið og finna nýjan mann í brúnna.

Karfan.is hitti á Einar og spurði afhverju hann væri að hætta þó samningur hans sé ekki búinn.
„Það eru fyrst og fremst fjölskylduástæður fyrir því að dvöl mín í Kópavoginum verður ekki lengri í þetta sinnið.  Ég er búsettur í Njarðvík og tíminn í keyrslu og lengd frá heimili gera mér erfitt fyrir við breyttar aðstæður heima fyrir.“

Ertu sáttur við árangurinn?
„Ég er mjög sáttur við þessi tvö ár sem ég hef átt í Kópavoginum.  Við áttum frábært ár í fyrstu deildinni í fyrra og sigruðum hana og náðum þar markmiði vetrarins, og í vetur höfum við unnið marga fína sigra sem kannski margir bjuggust ekki við og vorum sem dæmi aldrei í fallsæti þrátt fyrir að okkur væri spáð neðsta sætinu.  Miðað við þau meiðsl sem hafa hrjáð liðið þá held ég að menn geti verið stoltir með niðurstöðuna, áttunda sætið og einum sigri frá því að stela sjötta sætinu.  Markmiðið var að halda sætinu í deildinni og úrslitakeppni var í raun á markmiðalista næsta árs þannig að við vorum í raun eitthvað á undan áætlun.”

Hvað með framtíðina í Kópavoginum, hvernig sérðu hana?
„Það eru margir mjög efnilegir drengir í Breiðablik og með góðri vinnu stjórnar og þjálfara hjá félaginu þá á framtíðin að vera björt.  Aðstaðan er fín í Smáranum og nú byggja menn ofan á þessi fyrstu skref sem hafa verið tekin í leit að því að eiga samkeppnishæft lið í efstu deild á komandi árum.”

Hvað tekur við hjá þér?
„Framundan hjá mér er annars vegar Norðurlandamót með U16 drengi í maí og svo fer ég með U15 drengi á Copenhagen invitational 2009 sem er haldið í byrjun júní.   Hvað varðar þjálfun næsta vetur þá skýrist það eflaust fljótlega hvað verður.  Ég hef verið að þjálfa núna í 16 ár og finnst ég nú bara vera rétt að byrja svo það er ekki á dagskrá að taka sér frí frá þjálfuninni meðan eitthvað býðst nærri mínum heimahögum.”

Einar Árni var að ljúka sínu fimmta tímabili sem þjálfari meistaraflokks karla en hann tók við Njarðvíkurliðinu sumarið 2004 og stýrði þeim til Íslandsmeistaratitils vorið 2006, sumarið 2007 hélt hann svo í Kópavoginn og tók við Breiðablik í 1. deild. Þeir fóru upp í fyrstu tilraun og nú eftir eitt ár í Úrvalsdeild lætur Einar af störfum. Árangur hans í Úrvalsdeild er 61 sigur í 88 leikjum sem er 81,5% sigurhlutfall, í úrslitakeppni hefur hann unnið 14 af 25 leikjum sem er 56% sigurhlutfall.

[email protected]

Mynd: Snorri Örn Arnaldsson

Fréttir
- Auglýsing -