spot_img
HomeFréttir"Eigum ekkert að vera hérna miðað við umræðuna fyrir mót"

“Eigum ekkert að vera hérna miðað við umræðuna fyrir mót”

Undanúrslit Subway deildar karla rúlluðu af stað í kvöld með einum leik. Deildarmeistarar Vals lutu í lægra haldi gegn Njarðvík í N1 höllinni, 84-105. Njarðvíkingar því komnir með yfirhöndina í einvíginu 1-0, en næsti leikur er komandi föstudag í Ljónagryfjunni.

Hérna er meira um leikinn

Karfan spjallaði við Benedikt Guðmundsson þjálfara Njarðvíkur eftir leik. Hann var ánægður með sitt lið en gætti sín þó á því að svífa ekki um Hlíðarenda:

Til hamingju með frábæran sigur!

Já, takk fyrir það!

Samkvæmt óskeikulli greiningu minni á leiknum þá fannst mér þolinmæði þinna manna sóknarlega leggja svolítið grunninn að þessu, þið voruð ekkert að drífa ykkur, þið voruð keyra inn í vörnina, leita út aftur ef þurfti, keyra aftur inn, koma hreyfingu á vörnina og að lokum brjóta Valsvörnina á þennan hátt…

Já, þetta er algert lykilatriði fyrir okkur því að við erum góðir sóknarlega þegar við erum að hreyfa boltann, svinga honum á milli kanta, ekki taka fyrsta möguleika og ekki endilega annan heldur bara fara djúpt í sóknina og þá eru allir að skora hjá okkur. En það er samt þannig hjá okkur og búið að vera eitthvað sem við erum að vinna í að boltinn stoppar öðru megin og þá náum við ekki þessu flæði og þá verður þetta stirðara. En fyrir okkur þá skiptir það öllu máli að boltinn sé á hreyfingu mikið og allir séu að snerta hann. Þá erum við að spila okkar besta bolta og mestar líkur á því að við skorum þegar boltinn er að flæða.

Akkúrat. Svo gerir Dwayne rosalega vel í kvöld, eins og reyndar eiginlega allt liðið! Hann er svona maðurinn hjá ykkur sem er svona líklegastur til að koma með eitthvað upp á sitt einsdæmi, en þið þurftuð svo sem ekkert mikið að slíku að halda í þessum leik.

Nei, Dwayne er svona okkar go-to leikmaður, stundum tekur hann framúr sér og inn á milli þröngvar hann skotum sem við erum svona að reyna að minnka hjá honum. En hann er algerlega ómetanlegur fyrir þetta lið og alger lykilleikmaður, ekkert bara sóknarlega heldur líka varnarlega, hann er sterkur þar.

Já akkúrat, hann gerði t.a.m. mjög vel á Badmus í þessum leik…

Já. Og þeir náttúrulega þekkjast vel, þeir hafa þekkst frá því þeir voru litlir, báðir frá Bretlandi þannig að þeir þekkja hvor annan út og inn. Það er gaman að fylgjast með þeim eigast við.

Já skemmilegt! Hafði ekki heyrt þetta. En ég skrifaði í inngangi pistilsins að menn hafa ekki mikið verið að tala um Njarðvík og titil svona í sömu málsgreininni…eigum við að fara að byrja á því?

Nei…ég er alla veganna ekki að fara að tala um það. Ég er ekki yfirlýsingaglaður og ég vil bara að við látum verkin tala og gerum það þannig. Við eigum ekkert að vera hérna miðað við umræðuna fyrir mót og eftir að mótið byrjaði og svona…okkur var ekki einu sinni spáð inn í úrslitakeppnina þannig að…

…ég botna nú ekkert í því…

…neinei en við höfum ekki afrekað neitt í þessari seríu. Við erum bara yfir hérna í upphafi, nú þurfum við bara að halda fókus og bæta okkur. Ég er ekkert að missa mig hérna þó við séum 1-0 yfir, Stjarnan var 1-0 yfir hérna í fyrra eða árið áður…og töpuðu 3-1 þannig að…þetta Valslið er skrímsli sem mun koma til baka svo það er bara áfram gakk.

Jájá, þið þurfið bara að hafa báða fætur á jörðinni og byrja á því að reyna að komast í 2-0 á heimavelli.

Já, riiisaleikur fyrir okkur næst á heimavelli! Ef við ætlum að vera í einhverju rugli þar þá er bara búið að taka þennan sigur af okkur…

…já þá er bara búið að troða honum í ruslið…

Já..við þurfum að láta þennan telja!

Sagði Benni sem hefur marga fjöruna sopið í þessum bransa og mun gera sitt besta til að halda sínum mönnum á jörðinni og rétt stilltum í komandi risaleik!

Fréttir
- Auglýsing -