Miðherjinn Egill Jónasson hefur ákveðið að taka sér frí frá körfuboltanum þessa leiktíðina sökum anna í námi og meiðsla í hné. Þetta staðfesti Egill í samtali við Karfan.is í dag en þessi 218 sm. hái miðherji er uppalinn í Njarðvík og lék með grænum á síðasta tímabili.
,,Ég verð líklega ekkert í körfunni í vetur, hnéið er enn að angra mig og þá er einnig nóg að gera í skólanum hjá mér þennan veturinn,“ sagði Egill sem er við það að ljúka BS-gráðu í Orku- og Umhverfistæknifræði.
,,Ég er ekki alveg hættur en ætla bar að sjá til hvernig hnéið á mér verður eftir veturinn og taka svo ákvörðun í framhaldi af því. Þá er einnig inni í myndinni hjá mér að fara út og læra meira,“ sagði Egill sem á síðustu leiktíð lék 24 leiki með Njarðvíkingum og gerði í þeim 2,8 stig og tók 2,4 fráköst að meðaltali í leik.
Mynd/ Þorsteinn Eyþórsson: Egill trónir hér yfir liðsfélögum sínum í Njarðvík eftir frækinn sigur í Stykkishólmi á síðustu leiktíð.