Dennis Rodman var á dögunum tekinn inn í frægðarhöll körfuboltans í Bandaríkjunum. Vitaskuld var kappinn skrautlegur til fara eins og hans var von og vísa en ræða Rodman sem hann flutti við athöfnina hefur vakið athygli.
Phil Jackson gamli þjálfari Rodman frá Chicago Bulls tímanum var honum innan handar á sviðinu en þetta er sama athöfn og Keflvíkingurinn Tómas Tómasson var viðstaddur í boði Tex Winter. Þá var örvhenta undrið Chris Mullin einnig tekinn inn í frægðarhöllina.
Eins og flestir máttu gera sér grein fyrir þá snérist sýningin um Rodman sem var oft klökkur í pontu og sagði að án þess að á Isiah Thomas eða Joe Dumars væri hallað frá Pistons tímanum sínum þá væru Scottie Pippen og Michael Jordan þeir bestu sem hefðu spilað þennan leik.
,,Ég hefði getað verið dauður, ég hefði getað verið eiturlyfjasali en ég komst út úr fátækrahverfunum en það kostaði mikla vinnu og það voru margar hindranir á mínum vegi,“ er meðal þess sem kemur fram í ræðu Rodman sem nálgast má í heild sinni hér.