spot_img
HomeFréttir?Ég hef áhuga á að vera áfram í Róm"

?Ég hef áhuga á að vera áfram í Róm”

10:33

{mosimage}

Í Morgunblaðinu í gær er að finna skemmtilegt viðtal við Jón Arnór Stefánsson leikmann landsliðsins og Lottomatica Roma.

 

JÓN Arnór Stefánsson, leikmaður ítalska körfuknattleiksliðsins Lottomatica Roma, vonast til þess að geta leikið með liðinu á ný í byrjun febrúar. Landsliðsmaðurinn hefur ekkert getað æft undanfarnar tvær vikur vegna meiðsla á lærvöðva og er útlit fyrir að hann verði frá í tvær vikur til viðbótar. Umboðsmaður Jóns er í viðræðum við ítalska liðið þessa dagana en að sögn Jóns hafa nokkur lið sýnt því áhuga á að fá hann í sínar raðir á næstu leiktíð. 

„Þetta er að sjálfsögðu hundleiðinlegt ástand og ég má í raun lítið hreyfa mig þar sem að ég má ekki reyna mikið á vöðvann sem er að hluta til rifinn. Ég er í sjúkraþjálfun tvívegis á dag og ég má fara að synda og hjóla á allra næstu dögum.“ Jón Arnór hefur verið einn af lykilmönnum  Roma í vetur en liðið er í öðru sæti deildarkeppninnar á Ítalíu og í kvöld mætir liðið serbneska liðinu Partizan í Meistaradeild Evrópu. 

Erfitt að sitja og horfa á

„Mér finnst alveg hrikalega erfitt að sitja á varamannabekknum og horfa á leiki án þess að geta gert neitt. En þetta er hluti af atvinnumennskunni og ég stefni á að koma sterkur til leiks í  bikarkeppninni sem fram fer 8.-10. febrúar. Þar leika 8 efstu lið deildarinnar og er þetta mjög skemmtilegt fyrirkomulag. Ég varð bikarmeistari með Napólí á sínum tíma og ég þekki þvíhvernig það er að fagna þessum titli.“ 

Samningur Jóns Arnórs rennur út í lok leiktíðar en umboðsmaður hans er að ræða þessa dagana við forráðamenn Roma. „Ég hef áhuga á því að vera hérna áfram. Staðan er þannig að önnur lið hafa sýnt mér áhuga og það á því eftir að koma í ljós hvað verður. Ég kem ekki sjálfur að þessumviðræðum og einbeiti mér aðeins að því að spila fyrir félagið. Mér líður mjög vel hérna í Róm og vonandi verður niðurstaðan sú að ég verði hérna áfram.“ 

Jón Arnór kom til Roma um mitt síðasta tímabil eftir að hafa dvalið í hálft ár hjá spænska liðinu Valencia. Hann fékk lítið að spreyta sig með Valencia eftir að hann meiddist á lærvöðva í byrjun tímabilsins. 

EM í handbolta ekki á dagskrá

Evrópukeppni landsliða í handknattleik er ekki ofarlega í huga almennings á Ítalíu að sögn Jóns en bróðir hans, Ólafur, er lykilmaður í íslenska landsliðinu sem leikur fyrsta leikinn á EM í Noregi á fimmtudaginn. 

„Ég mun fylgjast með ef það er hægt að sjá leiki íslenska landsliðsins á vefnum. Það fer lítið fyrir handboltanum hérna á Ítalíu og ekkert sýnt frá þessari keppni í sjónvarpi. Vonandi gengur íslenska liðinu sem allra best,“ sagði Jón Arnór Stefánsson.  

HNOTSKURN

»Jón Arnór hefur leikið í fjórum löndum sem atvinnumaður frá því hann fór frá KR árið 2002. Hann var með Trier í Þýskalandi, 2002- 2003. Þaðan fór hann til Dallas Mavericks í NBA-deildinn í Bandaríkjum en hann fékk ekki tækifæri með Dallas í deildarkeppninni.  

»Veturinn 2004-2005 lék hann með Dynamo St. Petersburg í Rússlandi. Þaðan fór hann til Carpisa Napoli og sumarið 2006 samdi hann við Valencia á Spáni.

Morgunblaðið/[email protected] 

Mynd: www.virtusroma.it

Fréttir
- Auglýsing -