spot_img
HomeFréttirÉg er orðinn vanur því að fá ekki boltann

Ég er orðinn vanur því að fá ekki boltann

10:00

{mosimage}

Við höldum áfram að birta skrif dagblaðanna um einvígið á Ítalíu í síðustu viku. Nú er komið að skrifum Óskars Ófeigs um ítalskan körfubolta, þetta birtist þriðjudaginn 10. júní.

Jón Arnór Stefánsson gagnrýnir félaga sína eftir 72-80 tap Lottomatica Roma í þriðja úrslitaleik sínum á móti Montepaschi Siena. Liðið komst mest tuttugu stigum yfir í fyrri hálfleik leikur þess fór í algjört rugl í seinni hálfleik og það tapaði á endanum.

Jón skoraði átta stig í leiknum en sérstaklega var gaman að fylgjast með honum í vörninni. Hann var ekki eins sáttur við frammistöðu sumra leikmanna í hans liði, til dæmis Króatann Roko Ukic sem Toronto Raptors valdi árið 2005 en hefur aldrei spilað í NBA.

Ukic skoraði 11 af 14 stigum í rusltíma í lokin og fór illa með margar sóknir fram að því. „Hann var skelfilegur og hann hefur ekki verið að spila vel. Hann er leikstjórnandinn okkar en er að reyna of mikið sjálfur og gefur ekki tuðruna oft á tíðum. Við þurfum að láta boltann ganga kantanna á milli til þess að hreyfa vörnina og ráðast síðan á hana. Hann er bara að hanga of mikið á boltanum. Ég er ósáttur við hans leik og hef verið það,“ sagði Jón hreinskilinn. Vel er hægt að skilja pirring hans því boltaflæðið er nánast ekkert í  liðinu þökk sé mönnum eins og Ukic.

Það er aðeins Jón Arnór sem er að hreyfa boltann hratt á milli kanta. „Menn í liðinu eru ekki alveg að fatta það að boltinn þarf að ganga betur til að við getum komist almennilega í gang í sókninni,“ segir Jón Arnór en það var líka áberandi að okkar maður fékk ekki boltann þegar hann var galopinn.

Slæm hittni hans á örugglega þátt í því en hann fékk heldur ekki boltann eftir að hann hitti vel í þriðja leiknum. „Ég er orðinn vanur því að fá ekki boltann þegar ég er opinn. Ég er að fá mjög fá skot í leik. Ég verð bara að vera með níutíu prósenta nýtingu í þessum skotum ef ég á að skora eitthvað. Það er klárlega ekki mitt hlutverki í þessu liði að skora,“ segir Jón Arnór. Fjórði leikurinn er í kvöld og leikur Lottomatica upp á líf og dauða. Tap þýðir að liðið er komið í sumarfrí, sem er ekki á óskalista leikmanna alveg strax.

Fréttablaðið

Mynd: www.kki.is

Fréttir
- Auglýsing -