Körfuknattleiksdeild KR hefur komist að samkomulagi við hinn bandaríska Ed Horton um að spila með liðinu á komandi tímabili. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Íslands- og bikarmeisturunum.
Horton er um það bil 191 sm á hæð og leikur hann stöðu leikstjórnanda auk þess að geta annað mínútum í stöðu skotbakvarðar. Horton lauk námi frá Murray State háskólanum 2007 og hefur leikið í neðri deildum í Bandaríkjunum síðan þá. Horton þykir líkamlega sterkur leikstjórnandi sem skilar góðu varnarhlutverki auk þess að vera mikill liðsspilari.
Horton kemur til KR-inga í kjölfar góðrar frammistöðu sinnar í Sumardeild Eurobasket í Houston á dögunum en þar skilaði hann stigahæsta leiknum (35 stig) auk þess að vera valinn í úrvalslið deildarinnar með 18.4 stig, 4.3 fráköst og 7.2 stoðsendingar.
Til stóð að DeWayne Reed mætti til leiks í Vesturbænum en báðir aðilar komust að því samkomulagi að slíta þeim ráðahag fyrir allnokkru.