spot_img
HomeNBADenver Nuggest NBA meistarar

Denver Nuggest NBA meistarar

Denver Nuggets lönduðu sínum allra fyrsta NBA meistaratitli í nótt þegar þeir mörðu mjög svo grimmt lið Miami Heat. Lokastaða næturinnar 94:89 og líkast til erfiðasti leikur Denver hingað til í seríunni (f. utan tapið í leik tvö að sjálfsögðu) Miami leiddu með 7 stigum í hálfleik eftir slaka hittni heimamanna í öðrum leikhluta og eflaust fór hrollur um stuðningsmenn Denver að þurfa að sjá á eftir liði sínu þurfa að ferðast aftur til Miami.

Miami leiddu megnið af leiknum þetta kvöldið og það var ekki fyrr en í fjórða leikhluta að leikurinn jafnaðist út og í hönd fór ótrúlegar 12 mínútur af körfuknattleik þar sem að aldrei meira en 1-2 stig skildu liðin. Miami mættu til leiks og notuðu öll sín vopn til fulls. Ótrúleg 13 stig í röð frá Jimmy Butler á lokakaflanum héldu liðinu við efnið en þessi sena hans hjó vissulega á eldsneytið og að endanum var það að þrotum þegar Butler sendi boltann í hendur leikmanna Denver þegar 25 sekúndur lifðu af leiknum. Þennan vendipunkt lifði Miami liðið ekki af og Denver hampaði sínum fyrsta NBA titli í sögunni og það verðskuldað.

Jokic besti leikmaður úrslitana

Miðlar vestra kalla þetta nú eitt allra besta “háskólaval” allra tíma. Val númer 41 árið 2014. Nicola Jokic landaði ekki bara NBA titlinum heldur kom það kannski fáum á óvart þegar Finals MVP (Besti leikmaður úrslitana) fór í hans hendur eftir leik. 28 stig og 16 fráköst urðu tölurnar hans í gær og undirstrikaði mikilvægi sitt í liði Denver og hversu öflugur þessi leikmaður er. Liðsfélagar hans hafa svo verið duglegir að skipta mikilvægum hlutverkum á milli sín í seríunni og í gær var komið af Michael Porter jr. sem hlóð í 16 stig og tók 11 fráköst.

Spoelstra: Við lögðum allt í þetta

Segja má að hátt verð á hlutabréfum í Eric Spoelstra hafi hækkað eftir tímabilið. Kappinn vatt hvern einasta dropa úr þessu Miami liði eins og blauta tusku. Á endanum var tuskan hinsvegar skrjáfa þurr en Spoelstra sagðist stoltur eftir leik en einnig djúpur í ræðu sinni við fréttamenn. “Miami liðið er líkast til eitthvað sem margir geta tengt sig við þetta árið. Ef þér hefur einhverntíman liðið þannig að þú sért ekki nógu góður eða fengið mótbárur í fangið og þótt erfitt að standa það af þér. Þá veistu hvernig klefinn hjá okkur hefur verið á köflum í vetur. En liðið hefur staðið ölduna með því að mistakast á leiðinni og verða sterkara fyrir vikið. Við náðum ekki að landa þeim stóra vissulega og það er bara þannig í lífinu að maður fær ekki allt sem maður vill þrátt fyrir gríðarlegan vilja. Öll spil innan liðsins voru lögð á borðið en á endanum vorum við bara að spila gegn sterkara liði” sagði Spoelstra meðal annars eftir leik.

Malone: Ekki eyðileggja þetta með heimskum spurningum

Michael Malone þjálfari Denver Nuggest mætti í fréttaviðtal með einn dulbúin Michelob Ultra (léttur) í kampavínsflösku kampa kátur að vonum. Malone vitnaði í orð frá Pat Riley þar sem hann lýsti því hvernig lið verður að sigurvegara og vinnur sig uppí að verða áskorandi á titlinum og svo að lokum meistari. En að það væri ekki loka skrefið heldur væri eitt skref í viðbót og það er að verða sögufrægt félag. “Þetta er aðeins byrjunin hjá okkur, við ætlum okkur að verða meira en bara meistarar 2023, við erum ekki saddir. Klefinn er stútfullur af ungum sterkum leikmönnum.” sagði Malone en hélt svo áfram að ræða hans fyrir fréttamenn líktist á tímabili Óskarsverðlaunaræðu en hann lauk þessu með því að segja “Ég er virkilega að njóta stundarinnar og titilsins þannig að ekki eyðileggja þetta fyrir mér með einhverjum heimskum spurningum.” sagði Malone að lokum og uppskar hlátrasköll meðal fréttamanna.

Fréttir
- Auglýsing -