spot_img
HomeFréttirDeildarmeistaratitillinn nánast örugglega til Keflavíkur eftir sigur þeirra gegn Val

Deildarmeistaratitillinn nánast örugglega til Keflavíkur eftir sigur þeirra gegn Val

Keflavík lagði Val í kvöld í 25. umferð Subway deildar kvenna. Eftir leikinn er Keflavík í efsta sæti deildarinnar með 44 stig á meðan að Valur er í 2.-3. sætinu með 40 stig líkt og Haukar.

Með aðeins þrjár umferðir eftir verður að teljast ansi líklegt að sigur Keflavíkur hafi endanlega tryggt þeim deildarmeistaratitilinn þetta árið, með 4 stig á liðin í 2. og 3. sæti og aðeins leiki gegn liðum sem verða ekki í úrslitakeppninni eftir.

Fyrir leik

Liðin höfðu í þrígang mæst í deildinni í vetur, þar sem að Keflavík hafði einingis haft sigur í þeim fyrsta. Sigur þeirra þar þó bara með 3 stigum, 75-78 og þurftu þær því að vinna með meira en 13 stigum í kvöld til þess að ná innbyrðisstöðunni gegn Val.

Gangur leiks

Valskonur byrja leikinn á 7-0 áhlaupi. Heimakonur eru þó nokkuð snöggar að ná áttum og eru búnar að jafna leikinn þegar 3 mínútur eru eftir af þeim fyrsta, 11-11. Keflavík nær svo að loka fjórðungnum með mikilli orku og eru 4 stigum yfir fyrir þann annan, 17-13. Leikurinn er svo í miklu jafnvægi vel inn í annan fjórðung, þar sem munar aðeins tveimur stigum á liðunum þegar rúmar fimm mínútur eru til hálfleiks, 22-20. Heimakonur ná svo að hanga naumlega á forystunni til búningsherbergja í hálfleik, 31-30.

Stigahæst fyrir Keflavík í fyrri hálfleiknum var Daniela Wallen með 9 stig á meðan að Kiana Johnson var komin með 8 stig fyrir Val.

Heimakonur mæta dýrvitlausar inn í seinni hálfleikinn og ná ágætis áhlaupi. Þeim gekk þó erfiðlega að hrista Valskonar af sér lengst af í fjórðungnum, en undir lokin ná þær að skapa smá bil og er munurinn 8 stig fyrir lokaleikhlutann, 53-45. Keflavík gera fá mistök í upphafi fjórða leikhlutans og ná enn að bæta við forskot sitt, sem er komið í 14 stig þegar að tæpar 5 mínútur eru eftir af venjulegum leiktíma. Undir lokin ná þær svo enn að gefa í og vinna leikinn með 15 stigum og innbyrðisviðureign tímabilsins gegn Val með tveimur stigum.

Atkvæðamestar

Karina Denislavova Konstantinova var best í liði Keflavíkur í kvöld með 20 stig, 8 fráköst, 6 stoðsendingar og 4 stolna bolta. Fyrir Val var Kiana Johnson atkvæðamest með 15 stig, 6 fráköst, 4 stoðsendingar og 10 stolna bolta.

Hvað svo?

Bæði lið eiga leik næst komandi sunnudag 19. mars, en þá heimsækir Keflavík nýliða ÍR í Skógarsel og Valur fær Grindavík í heimsókn.

Tölfræði leiks

Fréttir
- Auglýsing -