spot_img
HomeFréttirDaníel: Þurfum virkilega að skoða okkar mál

Daníel: Þurfum virkilega að skoða okkar mál

Daníel Guðmundsson þjálfari Njarðvíkur var grautfúll með 93-74 tapið gegn ÍR í Seljaskóla í kvöld. Njarðvík sá aldrei til sólar í leiknum og varð algjörlega undir í baráttunni gegn sterkum breiðhyltingum. 

 

 

„Vorum ekki að spila nægilega vel hérna í kvöld. Varnarleikurinn var ekki til fyrirmyndar, fáum á okkur 93 stig og sóknarleikurinn var tregur eftir það. Þetta var hugmyndasnautt, lélegar skiptingar á vellinum, lítið tal og bara hundlélegt.“  sagði Daníel í samtali við Karfan.is eftir leikinn í kvöld. Um útskýringar á tapinu sagði hann svo:

 

„Mér finnst að körfubolti eigi alltaf að byrja á vörninni, mér fannst við ekki mæta nægilega grimmir til leiks og þeir fá opin skot strax í upphafi. Við vorum einhvernvegin alltaf skrefi á eftir í vörninni. Þegar við náum ekki að stoppa þá í vörninni þá fáum við ekki auðveldar körfur. Við þurftum að hafa mjög mikið fyrir öllu sem við vorum að gera sóknarlega. ÍR gerði ágætlega á okkur varnarlega, ég tek það ekki af þeim. Við verðum samt að vera svo miklu betri en þetta.“ 

 

Njarðvík hefur nú tapað tveimur leikjum í röð en síðasti sigur leikur kom gegn KR í DHL höllinni fyrir tveim vikum. 

 

„Það er engin stöðugleiki í þessu hjá okkur, hverju það er um að kenna er eitthvað sem við verðum að skoða. Það eru ýmiss atriði í okkar liði sem hægt er að taka út. Ég bara nenni ekki þessum afsakanagír. Ég tel mig vera með það sterka einstaklinga og leikmenn í þessu liði til að berjast í öllum leikjum. Við þurfum að sýna meiri metnað og ákefð í vörninni. Ég hafði ekki áhyggjur af sóknarleiknum en ég geri það eftir leikinn í kvöld en varnarlega tökum við bara ekki þátt í leiknum.“ sagði Daníel. Njarðvík hefur tapað tveimur leikjum í röð gegn liðum sem eru í neðri hluta deildarinnar en telur hann ekki að þessi töp gætu reynst dýr þegar allt kemur til alls. 

 

„Þetta gæti orðið mjög dýrt. Við þurfum bara virkilega að skoða okkar mál og hvað við ætlum að gera í næsta leik sem er mjög mikilvægur leikur fyrir okkur.“

 

Mynd / Bára Dröfn

Fréttir
- Auglýsing -