spot_img
HomeFréttirCraig Pedersen "Þessir leikir eru gríðarlega mikilvægir"

Craig Pedersen “Þessir leikir eru gríðarlega mikilvægir”

Íslenska landsliðið mætir Lúxeborg í dag í fyrri leik glugga síns í undankeppni heimsmeistaramótsins 2023. Fer leikurinn fram kl. 15:00 að íslenskum tíma í Bratislava í Slóvakíu, en hann verður sýndur í beinni útsendingu á RÚV.

Karfan setti sig í samband við þjálfara liðsins Craig Pedersen og spurði hann út í veruna í Slóvakíu, ástand liðsins og leikina tvo.

Hvernig eru aðstæður í búbblunni í Bratislava?

„Það fer vel um okkur hér, maturinn er góður og þetta er vel skipulagt. Nóg pláss og næði á hótelinu“

Hverjir eru helstu styrkleikar og veikleikar liðsins sem spilar leikina tvo?

„Helsti styrkleikinn er hversu vel samstilltur hópurinn er, alltsaman leikmenn sem hafa verið að spila með liðinu í síðustu gluggum, sem og voru þeir allir að æfa með liðinu í júlí. Veikleikinn væri sú staðreynd að þeir leikmenn sem eru að spila á Íslandi hafa ekkert fengið að æfa eða spila í dágóðan tíma“

Hefur það verið erfitt að koma æfinga- og leikjasveltum leikmönnum frá Íslandi í stand?

„Við hvorki getum ætlast til, né ætlumst til að koma þeim í leikform á þremur dögum. Þeir eru samt allir að standa sig vel, hafa verið snöggir að finna lappir sínar aftur“

Hversu mikilvægir eru þessir leikir gegn Lúxemborg og Kósovó og hvað þarf Ísland að gera til þess að vinna?

„Þessir leikir eru gríðarlega mikilvægir! Við verðum að enda í efstu tveimur sætum riðilsins. Til þess að vinna verðum við að nýta styrkleika okkar, vera klárir og sýna samstöðu“

Tilfinningin er sú að pressan sé öll á Íslandi fyrir þessa leiki, hvort er erfiðara eða léttara að mæta til leikja þegar að liðið er metið hærra en andstæðingurinn?

„Við verðum að mæta til leiks með markmið okkar á hreinu. Þessi lið sjá skotmark á bakinu á okkur vegna þess að okkur hefur gengið vel síðustu ár. Við erum hinsvegar að byggja liðið aftur upp og verðum að leggja mikið á okkur ef við ætlum að eiga þess kost að ná sömu hæðum og verið hefur“

Við hverju mega aðdáendur Íslands búast í leikjunum tveimur?

„Ég vona að við náum að sýna agaðan, hraðan körfubolta þar sem margir leikmenn liðsins taka þátt, en við sjáum hvernig leikirnir þróast“

Fréttir
- Auglýsing -