Tíu leikir fóru fram í NBA deildinni í nótt og bar það helst til tíðinda að LA Clippers höfðu betur í grannaslagnum gegn LA Lakers, lokatölur 102-91 Clippers í vil. Byron Davis fann sig vel í herbúðum Clippers með 25 stig og 10 stoðsendingar en Kobe Bryant var með 33 stig og 8 stoðsendingar í liði Lakers.
Sigur Clippers í nótt var sá fyrsti í níu síðustu viðureignum liðanna en bæði lið voru án sterkra leikmanna þar sem Lakers léku án Spánverjans Pau Gasol og Clippers voru án Blake Griffins sem þeir fengu í fyrsta valrétt í nýliðavalinu síðasta sumar.
Dwyane Wade fór mikinn þegar Miami Heat mátti sætta sig við 106-112 ósigur á heimavelli gegn Boston Celtics. Wade gerði 44 stig í leiknum en það er það mesta sem hann hefur skorað á þessari leiktíð. Þá voru allir byrjunarliðsmenn Boston með 15 stig eða meira í leiknum og þeirra atkvæðamestur var Rajon Rondo með 25 stig.
Önnur úrslit næturinnar:
Atlanta 119-89 New Jersey
Cleveland 121-98 Washington
Orlando 103-108 Toronto
Miami 106-112 Boston
Minnesota 101-107 Golden State
Oklahoma 92-97 New Orleans
San Antonio 112-92 Detroit
Phoenix 118-110 Houston
Utah 117-94 Memphis
Ljósmynd/ Baron Davis fann sig vel í baráttunni um Los Angeles í nótt.