09:19
{mosimage}
(LeBron James skilaði magnaðri þrennu í nótt)
Cleveland Cavaliers náðu í nótt að minnka muninn í 3-2 gegn Orlando í úrslitum Austurstrandarinnar í NBA deildinni en liðin mættust í Quicken Loans Arena í Cleveland þar sem heimamenn höfðu betur 112-102.
Athyglisvert er að sjá að LeBron James gerði 37 stig í leiknum í nótt og Cleveland vann. Í þremur tapleikjum Cleveland í yfirstandandi seríu hefur James verði með 40 stig eða meira. Við þessi 37 stig bætti James svo 14 fráköstum og 12 stoðsendingum en á mannamáli kallast þetta ,,ofurþrenna.“
Tyrkinn Hedo Turkoglu var atkvæðamestur í liði gestanna með 29 stig en Dwight Howard gerði 24 stig og tók 10 fráköst. Liðin mætast svo aftur á morgun í Amway Arena í Orlando þar sem heimamenn geta komist áfram í úrslit NBA deildarinnar með sigri. Ef Cleveland hefur sigur á morgun verður að bregða til oddaleiks. Þess má líka geta að ef Cleveland vinnur seríuna verður það aðeins í níunda skipti síðan árið 1947 sem liði tekst að komast áfram eftir að hafa lent 3-1 undir.