Bandaríski leikstjórnandinn Chris Paul er orðinn liðsmaður LA Clippers en þangað fer hann frá New Orleans Hornets. Töluvert fjaðrafok hefur verið í kringum Paul síðustu tvær vikur og barðist stóri bróðir í englaborginni, LA Lakers, um að fá að njóta krafta Paul en svo varð á endanum ekki.
Chaunsey Billups mætir einngi til Clippers en frá fara þeir Eric Gordon, Chris Kaman og Al-Farouq Aminu. Á blaðamannafundi neitaði Chris Paul að tjá sig nokkuð um Lakers og tók m.a.s. alveg fyrir að nefna liðið á nafn. Stuðningsmenn Clippers hugsa sér nú gott til glóðarinnar og vísast eru væntingarnar gríðarlegar við þessa nýju búbót en staðreyndin er einfaldlega sú að Clippers hafa ekki á sterkum grunni að byggja, 41 árs gamall klúbburinn hefur aldrei orðið NBA meistari. Liðið hefur ekki heldur unnið vesturströndina og síðustu 19 ár hefur liðinu ekki tekist að vera með 50% vinningshlutfall eða meira. Síðan árið 1976 hefur liðið einnig aðeins unnið einn leik í úrslitakeppninni.
Þó Clippers-aðdáendur hafi vissulega ríka ástæðu til þess að fagna með tilkomu eins sterkasta leikstjórnanda NBA deildarinnar þá segir sagan sitt.