spot_img
HomeNBACeltics aftur í bílstjórasætið - 2:1 yfir gegn Warriors

Celtics aftur í bílstjórasætið – 2:1 yfir gegn Warriors

Boston Celtics og Golden State Warriors færðu einvígi sitt úr vestrinu yfir í austrið, nánar tiltekið til Boston þar sem þriðji leikur liðana um meistaratitil NBA fór fram í nótt. Skemmst frá því að segja þá fóru heimamenn í grænu vel með sinn heimavöll þetta kvöldið þegar þeir sigruðu 116:100.

Leikurinn var hin mesta skemmtun líkt og þeir sem fyrr hafa verið leiknir. Boston ávallt skrefinu á undan og komust mest í 18 stiga forystu í fyrri hálfleik. Í þriðja leikhluta settu Klay Thompson og Steph Curry upp flugeldasýningu og komust gestirnir yfir í stöðunni 83:82 eftir sjö stig sókn Warriors þar sem að Curry meðal annars setti niður þrist og víti eftir brot Al Horford.

Fjórði leikhluti var hinsvegar eign heimamanna þar sem þeir settu 23 stig gegn 11 og silgdu sigrinum þægilega í höfn.

Warriors liðið og stuðningsmenn þeirra voru á tánum þegar 4 mínútur voru til loka leiks þegar Steph Curry fékk Al Horford ofaná sig og virtist vera sárþjáður. Miðlar náðu að blása upp heilan loftbelg af dramatík í kringum þessi meiðsli sem virtust ekki vera líkleg til að stoppa kappann. Curry staðfesti það svo eftir leik að honum þætti ansi ólíklegt að hann myndi missa af leik og stakk endanlega á þá dramablöðru.

Þríeykið Tatum,Smart og Brown hjá Boston hlóðu í 77 stig af 116 milli sín þetta kvöldið og voru illviðráðanlegir. Hinsvegar sem minna er fjallað um er varnarvinna og viðvera Rob Williams miðherja Boston. 10 fráköst, 4 varin skot og 3 stolnir boltar ná ekki alltaf hæstu hæðum í fyrirsögnum en vera hans í teig Boston virðist vega þungt þegar öllu er á botninn hvolft, meira segja gegn Warrirors sem vilja jú meira skjóta boltanum nánast frá miðju að öllu jöfnu.

Klay Thompson hafði fyrir leik ekki átt neina drauma leiki en þetta kvöldið nelgdi hann niður 25 stig sem dugðu þó ekki. Steph Curry vann sína vinnu nokkuð vel og bætti við 31 stigi.

Það er mál manna og flestra miðla vestan hafs að þessi sería sé ein af þeim skemmtilegri. Áhorf á úrslitin í sjónvarpi hefur ekki verið jafn mikil í mörg ár og stór ástæða þess segja miðlar sé sú staðreynd að liðin tvö í úrslitum séu heimatilbúin vara, þ.e.a.s ekki samsett lið af keyptum stjörnum.

Fréttir
- Auglýsing -