12:39
{mosimage}
(Jakob í leik á dögunum með úrvalsliði Einars Jóhannssonar gegn A-landsliðinu)
Jakob Örn Sigurðarson er einn af mörgum landsliðsmönnunum sem verður ekki með íslenska liðinu á Smáþjóðaleikunum í Mónakó en liðið leikur sinn fyrsta leik í dag gegn Andorra. Jakob sem leikið hefur með Gesteberica Vigo í LEB 2 deildinni á Spáni bíður nú spenntur eftir því að fá staðfest hvort forsvarsmönnum Vigo takist að kaupa liðinu sæti í LEB 1 deildinni fyrir næstu leiktíð. Takist það ekki mun Jakob hugsanlega hugsa sér til hreyfings.
,,Ef það verður niðurstaðan að Vigo leiki í LEB 2 deildinni á næstu leiktíð mun ég skoða málið og jafnvel líta aðeins í kringum mig og sjá hvað annað sé í boði. Óskastaðan er auðvitað að fara með Vigo í LEB 1 og síðast þegar ég vissi að þá var það vilji forsvarsmanna liðsins að koma Vigo upp um deild,” sagði Jakob en hvernig líst honum á íslenska hópinn sem keppir nú á Smáþjóðaleikunum?
,,Mér líst mjög vel á hópinn og þeir virðast vera í þokkalegu formi og eru snöggir en þetta er aðeins lægra lið en við höfum vanalega verið að tefla fram. Í staðinn höfum við kannski fleiri skyttur í liðinu,” sagði Jakob sem fyrir Smáþjóðaleikana hafði gert aðrar ráðstafanir og komst því ekki til Mónakó.
Jakob segir að honum hafi liðið vel á Spáni og sé kominn nokkuð inn í tungumálið og hafi mikinn áhuga á því að leika áfram þar í landi. Það mun ráðast á næstu vikum hvað verður, bæði hvort Vigo verði í LEB 1 eða 2 og hvort Jakob verði áfram á mála hjá félaginu. ,,Þannig lagað er það bara Spánn eða Ítalía sem koma til greina hjá mér ef ég hugsa mér til hreyfings en ég geri ráð fyrir að Vigo bjóð mér annan samning,” sagði Jakob.