{mosimage}11:29:17
Andrew Bynum, miðherjinn ungi og efnilegi í liði LA Lakers, sneri aftur í nótt eftir langvinn hnémeiðsli og átti stórfínan leik í sigri á Denver Nuggets, sem er í ðru sæti í Vesturdeildinni.
Bynum skoraði 16 stig og tók 7 fráköst á rúmum 20 mínútum, en Lakers mun svo sannarlega muna um að fá þennan sterka leikmann til baka fyrir úrslitakeppnina. Leikurinn endaði 116-102 og eru Lakers nú með jafn marga sigra og Clevaland Cavaliers, en hafa að vísu tapað einum leik fleira. Kobe Bryant virðist vera gíraður fyrir úrslitakeppnina þar sem hann skoraði 33 stig í nótt, og Pau Gasol var óstöðvandi undir körfunni, og var með 27 stig og tók 19 fráköst.
Nuggets voru inni í leiknum lengi vel en góð skorpa hjá Bryant og Gasol í þriðja leikhluta þar sem Lakers skoruðu 16 gegn 5 gerði í raun út um leikinn.
Á meðan unnu Chicago Bulls Philadelphia 76ers, 113-99, en Chicago eygir enn von um að komast upp fyrir Sixers í 6. sætið í Austurdeildinni þegar þrír leikir eru eftir af deildarkeppninni.
Loks unnu Houston Rockets sigur á botnliði Sacramento Kings, 98-115, og komust þannig upp fyrir granna sína í San Antonio í Suð-Vesturriðlinum. Ron Artest fór fyrir Rockets með 26 stig, en Spencer Hawes var manna bestur hjá Sacramento, en þessu ungi miðherji hefur verið að koma sterkur inn að undanförnu.
Hér má sjá tölfræði leikjanna í nótt
ÞJ